Íslenskir handhafar bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins

Merki Bókmenntaverðlauna Evrópuráðsins

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins eru á vegum Skapandi Evrópu – fjármögnunarverkefni Evrópusambandsins vegna hinna skapandi og menningarlegu greina. Verðlaununum er „ætlað að sýna nýjustu og bestu upprennandi rithöfundum í Evrópu sóma“ svo vitnað sé beint í framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um menntun, menningu, fjöltyngi og æskulýðsmál.

Þátttökuríki í Skapandi Evrópu eru 36 talsins, þar með talið öll aðildaríki Evrópusambandsins; auk umsóknarríkjanna Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Lýðveldinu Makedóníu, Serbíu, Svartfjallalands og Tyrklands; og loks EES-landanna Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þessum mikla hóp er skipt í þrennt svo að á hverju ári er tilkynnt um sigurvegara eins þriðja ríkjanna (12-13 ríkja), þannig að hvert ríkjanna útnefni sigurvegara á þriggja ára fresti. „Íslandslotan“ er því einnig lota Bretlands, Búlgaríu, Grikklands, Hollands, Lettlands, Liechtenstein, Möltu, Serbíu, Svartfjallalands, Tékklands og Tyrklands. Þessi hópur hefur útnefnt sína sigurvegara á árunum 2011, 2014 og 2017.

Verðlaunahafar hljóta að launum 5.000 evrur og eru auk þess hvattir til að sækja um þýðingarstyrki fyrir verðlaunabækurnar til Evrópusambandsins.

Íslenskir verðlaunahafar

2017

Halldóra K. Thoroddsen: Tvöfalt gler (Kind, 2015)

Tilnefningar

Dagur Hjartarson: Síðasta ástarjátningin (JPV, 2016)

Dómnefnd: Tinna Ásgeirsdóttir (formaður), Helga Ferdinandsdóttir og Oddný Eir Ævarsdóttir

2014

Oddný Eir Ævarsdóttir: Jarðnæði (Bjartur, 2011)

Dómnefnd: Auður Aðalsteinsdóttir (formaður), Hermann Stefánsson og Ófeigur Sigurðsson

2011

Ófeigur Sigurðsson: Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma (Mál og menning, 2010)

Dómnefnd: Auður Aðalsteinsdóttir (formaður), Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Gyrðir Elíasson