Pistlar um orð og myndir

 

1000 sinnum þúsund X

Einhverntíma sagði einhver að ljóðlist væri myndlist. Einhverntíma sýndi einhver fram á að myndlist væri í rauninni ljóðlist. Myndlistin bregður upp ljóðrænum tengslum sem jafnvel orðfærustu ljóðskáld ná ekki að fanga. Ekki einu sinni í smæstu ljóðformum. Ljóðlistin bregður upp myndrænum tengslum sem jafnvel best sjáandi myndlistarmenn ná ekki að fanga. Ekki einu sinni á blaðsíðu í smæstu skissubókinni.

Við hugsum í myndum. Við orðum hugsanir.

Í einni ljóðlínu geta allir englar himnaríkis fallið í fang allra djöfla helvítis þar sem þeir rísa upp af myndfleti hvort sem hann er að finna á vegg, striga, í teiknimyndasögu eða skjá — og hvort sem línunni er varpað fram munnlega, skriflega eða í söng.

Epli eru jafn bragðgóð hvort sem þau eru orðuð eða mynduð.

Hús. Ský. Stóll. Fingur.

Sjón, 2016

 

Þorri Hringsson

 

ORÐ VERÐUR MYND

Orðin eru frumefni tungumálsins.  Þau eru óhlut- og staðbundin framsetning eða túlkun hugmynda og hugtaka sem geta borið margþætta merkingu.  Frásögnin er keðja þessara orða sem lýtur sínum innri lögmálum en hefur í grundvallaratriðum það markmið að skýra samhengið milli einstakra hugmynda og hugtaka.

Eins og orðið ber með sér er myndin sjónræn framsetning hugmynda og hugtaka, formræn túlkun á veruleikanum og getur ýmist verið hlutlæg eða óhlutlæg.  Hún einfaldar og einangrar þann sýnilega veruleika sem hún vísar í en magnar um leið hugmyndina sem hún vill draga fram.  Hugmyndin sem myndin kveikir vísar svo aftur í orðin sem við notum.

Myndasaga er í eðli sínu frásögn og sú frásögn er oftast nokkuð línuleg en því fer fjarri að hún sé eingöngu bundin við það.  Einkenni hennar eru stakar myndir sem lesandinn púslar saman, oftast að viðbættum texta.  Samhengi frásagnarinnar verður svo til í tómarúminu á milli rammana og í þessu bili kviknar einnig tími hennar, sem þar líður og því má segja að myndasagan sjálf verði til úr engu.  Hvernig hún er lesin er háð menningarlegum breytileika en í okkar vestræna samfélagi eru hún yfirleitt lesin frá vinstri til hægri.  Að ofan og niður, rétt einsog orð á blaðsíðu.  Keðja myndrænna hugtaka sem lýtur sínum eigin lögmálum.

Hugmyndir kveikja orð.  Orð kveikja myndir.  Myndir verða sögur.  Sögur verða hugmyndir.

Þorri Hringsson, 2016