Orðið á götunni

Bókmenntaborgin fagnaði fimm ára afmæli haustið 2016 og af því tilefni unnu fjórtán listamenn í pörum sjö listaverk eftir þema Lestrarhátíðar 2016: orð og mynd. Þessi verk voru sett upp víðsvegar um borgina. Þetta ár var því brugðið út af þeim vana að gefa út bók í tilefni hátíðarinnar heldur voru lesendur sendir í vettfangsferð um borgina að skoða verk þar sem umhverfi, textum og myndum var stefnt saman.

Öll áttu verkin það sameiginlegt að tengja saman orð og mynd á einhvern hátt en voru að öðru leyti ólík. Eitt verkið er vídeóverk þar sem myndin verður til í huga áhorfendans, önnur tefldu saman ljóði og mynd eða örtexta og mynd. Ætla má að þau hafi kveikt ótal aðrar myndir og orð í hugum lesenda.

Listamenn og staðsetningar:

Alda Björk Valdimarsdóttir og Sveinbjörn Pálsson
Kaffihús Vesturbæjar, Hofsvallagötu

Sjónin lagar sig að myrkrinu / Blátt

Hafið er okkur hugleikið á þeim harmrænu tímum sem við nú lifum, þegar vistkerfi heimsins eru komin að þolmörkum og sjötta útþurrkunarskeiðið er í uppsiglingu. Sjórinn er ekki aðeins að hitna, hann súrnar sem aldrei fyrr og nú er einnig svo komið að stór svæði í úthöfunum eru algjörlega lífvana vegna súrefnisleysis. Þar er einungis tær og tómur sjór og aðeins ljósið á greiða leið niður í djúpið. Okkur ber skylda til þess að bera þessum breytingum vitni.
Alda Björk Valdimarsdóttir og Sveinbjörn Pálsson

Alda Björk Valdimarsdóttir

Alda Björk er höfundur ljóðabókarinnar Við sem erum blind og nafnlaus. Hún hefur birt ljóð víða, m.a. í Són, TMM, Stínu og Ritinu. Hún skrifaði doktorsritgerð um ensku skáldkonuna Jane Austen og er dósent í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Sveinbjörn Pálsson

Sveinbjörn er letur- og grafískur hönnuður. Hann lærði grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands og síðar leturhönnun í KABK - konunglega listaháskólanum í Haag. Hann er um þessar mundir útlitshönnuður og ritstjóri tímaritsins The Reykjavík Grapevine.


Kött Grá Pje og Ásta Fanney Sigurðardóttir

Ættkvísl: Úlfabaunir. Vídeóverk

Verkið var sýnt í Bíó Paradís. 

Verkið byggist á hinu talaða orði og hvernig eitthvað getur komist til skila þó að það sé sett í allt annað samhengi og umhverfi. Það tengir kvikmyndina við ljóð og orð og reynir að fanga svipaða en á sama tíma ólíka upplifun á hreyfimyndum. Í grunninn er þetta skoðun á Grafarvoginum og nærumhverfi, en rithöfundarnir tveir fabúlera um geimárás og yfirtöku lúpínunnar á lifnaðarhætti manna í sci-fi kvikmynd sem þau byggja upp í hugum áhorfandans. Vangaveltur um tilveru mannsins og togstreitu hans við form sem hann fær ekki breytt, deilur um stöðnun og hreyfingu. Verkið er á mörkum þess að geta talist ljóð, videoverk, handrit, heimildarmynd eða kvikmynd. 

Ásta Fanney og Kött Grá Pje

Atli Sigþórsson

Atli (f. 1983) er Kött Grá Pje. Fúskari og örsagnaskáld. Önnur bók hans, Perurnar í íbúðinni minni, kom út hjá Bjarti haustið 2016.

Ásta Fanney Sigurðardóttir

Ásta Fanney (f. 1987) er ráðgátuskáld og listakona. Verk hennar innihalda oftar en ekki hljóð, tónlist og afbökun tungumálsins.

Eva Rún Snorradóttir og Bobby Breiðholt

Verslunin Iceland, verslunarkjarnanum Arnarbakka

Verkið er óður til kjarnanna sem áður prýddu hvert hverfi og gæddu þau lífi en eru nú á hverfanda hveli. 

Eva Rún og Bobby Breiðholt

Bobby Breiðholt

Bobby Breiðholt (Björn Þór Björnsson) er fæddur 1981. Hann lærði myndlist í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og er fyrrverandi baðvörður í Breiðholtslaug.
 

Eva Rún Snorradóttir

Eva Rún (f. 1982) er sviðslistakona og skáld. Býr í Reykjavík með konu sinni, ketti og bróður.

Elías Knörr og Elín Edda
Kaffibrennslan, Laugavegi 21

Morgunsárið er furðufugl

Við hugsuðum um morgun og landamæri. Við vildum búa til tilfinningu fyrir því. Okkur datt í hug furðufuglar og frelsi orðsins. Við unnum textann og myndina út frá því.

Morgunninn er svo hversdagslegt og óhjákvæmilegt fyrirbæri að hann þykir ómerkilegur. Hann er þó alls ekki venjulegur því engin dögun er eins.

Þetta getur verið svolítið ógnvekjandi því morgninum fylgir óvissa. Fólk reynir því ávallt að staðla dagana til að forðast óöryggi og nýja hluti.

Sumir fuglar þekkja töfra morgunsársins. Þeir eru frjálsir.

Elías Knörr og Elín Edda
 

Elías Knörr

Elías er fæddur 1981. Hann yrkir í anda kreasjónismans, heyjar sér orðamöguleika og skyggnist eftir nýjum röddum. Á íslensku hefur hann birt ljóðabækurnar Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum (Stella 2010) og Greitt í liljum (Partus 2016), sem hafa vakið mikla athygli og fengið frábæra dóma. Hann hefur einnig gefið út þrjár ljóðabækur á galisísku og hlotið stærstu ljóðaverðlaun móðurlands síns fyrir þá þriðju, Bazar de traidores (Svikarabasar), árið 2014. Einstök kvæði eftir Elías hafa einnig birst í kvæðasöfnum bæði hérlendis og erlendis.
 

Elín Edda

Elín Edda er 20 ára nemi á öðru ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur gefið út myndasögurnar Plöntuna á ganginum (2014) og Gombra (2016). Fyrir handritið að ljóðabókinni Tímasöfnun hlaut hún verðlaun úr Gullpennasjóði Menntaskólans í Reykjavík. Þann 6. október mun hennar fyrsta ljóðabók, Hamingjan leit við og beit mig, koma út hjá Partus Press í Reykjavík.

Ewa Marcinek og Wiola Ujazdowska
Icelandair Hotel Reykjavik Marina, Mýrargötu

Kona frá Póllandi

Kona frá Póllandi er myndræn ljóðsaga um það að vera á milli menningarheima og tungumála, sögð frá kvenlægu sjónarhorni. Þetta er saga um Annan, sem tilheyrir sérstöku kyngervi og líkama – kvenkyns. Þetta er sagan hennar. Hver er hún? Hvar á hún heima? Hvaða tungumál ætti hún að tala til að tjá eðli sitt sem þegar er flókið og mótsagnakennt? Kona. Innflytjandi. Pólverji. Eins og Medea en ekki jafn uppreisnargjörn. Hún lærði hvernig á að lifa innan í þessu tári sem hægt og hljótt „deyðir“ hana.

Ewa Marcinek og Wiola Ujazdowska
(íslensk þýðing: Kristín Viðarsdóttir)

Wiola Ujazdowska

Wiola er pólskur listamaður sem býr í Reykjavík. Hún lauk meistaranámi í listasögu frá Nicolaus Copernicus háskóla í Toruń árið 2012 þar sem hún lærði einnig málaralist og glerlist. Wiola hefur hlotið Jan Winczakiewicz verðlaunin og verið gestalistamaður í París. Haustið 2012 hóf hún nám í myndlist við Köln Institut für Restaurierungs- und Konservierungswissenschaft. Wiola flutti til Íslands árið 2014 og hér hefur hún unnið að skapandi verkefnum, bæði alþjóðlegum og íslenskum. Í list sinn fæst hún aðallega við að kanna tengslin milli kvenleika, náttúru og menningar. Verk hennar leita oft til dulvitundar þar sem, samkvæmt sálgreiningu (sem er ein af uppsprettum verka hennar) öll lög sálarlífsins lifa saman.

Ewa Marcinek

Ewa (f. 1986) er pólskur rithöfundur og skáld sem hefur búið í Reykjavík í þrjú ár. Í textum sínum leikur Ewa sér með ólík tungumál, togstreitu milli félagslegra og einkalegra sjálfsmynda, persónulegar sögur og minningar. Hún stundar nú nám við Myndlistarskólann í Reykjavík. Ewa er einn af stofnendum Ós pressunnar, samfélags jaðarhöfunda í Reykjavík, og hefur birt og flutt skáldskap á þeim vettvangi og víðar. Saga eftir hana mun birtast í næsta hefti Tímarits Máls og menningar sem væntanlegt er nú í haust. Ewa hefur kynnt pólska kvikmyndalist á Íslandi og tekið þátt í öðru skapandi starfi frá því að hún flutti til lands.

Jónas Reynir Gunnarsson og Lára Garðarsdóttir
Laugardalslaug

Vatn streymir, gufar upp og því rignir. Vatn er alltaf á hreyfingu og sú hreyfing varð fyrir okkur að innblæstri fyrir því hvernig texti og mynd gætu átt saman. Kveikjan að verkinu voru þvottaleiðbeiningar í sundklefum sem, eins og verkið, fjalla um samband fólks við vatn. 

Jónas Reynir Gunnarsson og Lára Garðarsdóttir

Jónas Reynir Gunnarsson

Jónas Reynir (f. 1987) er með MA-próf í Ritlist frá Háskóla Íslands. Hann vann bókmenntakeppni Stúdentablaðsins 2014 og 2015 gáfu Meðgöngumál út smásögu hans Þau stara á mig. Verk hans Við deyjum á Mars vann leikritunarsamkeppni LHÍ sama ár og var útskriftarverk leiklistardeildar LHÍ.

Lára Garðarsdóttir

Lára (f. 1982) er menntaður teiknari og kvikari frá The Animation Workshop í Danmörku. Hún hefur starfað við teiknimyndagerð, auglýsinga- og gjafavöruhönnun og myndskreytt fjölda náms- og barnabóka.

Lára býr og starfar í Reykjavík.

Kári Tulinius og Ragnhildur Jóhanns
Háskóli Íslands, Menntavísindasvið við Stakkahlíð

Barn í rigningu

Ég hélt á syni mínum í fanginu í dyragætt þegar allt í einu byrjaði að hellirigna. Sonur minn horfði hugfanginn á regnið og rétti út höndina til að snerta. Þá flaug mér í hug fyrri hluti ljóðsins, fram að „hvarf svo upp í skýin“. Það beið svo í samanbrotnum miða í veskinu þar til ég var beðinn um að skrifa ljóð á húsvegg í æskuhverfinu, Hlíðunum, og þá komu lokalínurnar.

Kári Tulinius

Við lestur ljóðsins finnur maður áþreyfanlega fyrir hreyfingunni í því, þessa hreyfingu vildi ég fanga inn í verkið og ég ákvað að taka ljóðið hans Kára og stokka það örlítið upp í lestri án þess þó að skemma fyrir lestrinum sem slíkum.

Ragnhildur Jóhanns

Kári Tulinius

Kári Tulinius er rithöfundur sem flakkar milli Finnlands og Íslands ásamt fjölskyldu sinni. Hann hefur gefið út eina skáldsögu, eina og hálfa ljóðabók, þriðjung úr þýðingu, komið að leikgerð eigin bókar, og á von á útgáfu annarar skáldsögu næsta vor. Hann er einn stofnanda Meðgönguljóða.

Ragnhildur Jóhanns

Ragnhildur Jóhanns (f.1977) býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda einka- og samsýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún rekur vefverslunina Listaverkasalan.com og galleríið Pláss auk þess sem hún hefur setið í stjórn Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og ritstjórn tímaritisins Endemi.

Ragnhildur leggur áherslu á tungumálið í listsköpun sinni þar sem hún leitast við að skapa sjónræn ljóð í formi skúlptúra, klippimynda, teikninga eða prents svo dæmi séu tekin.

-----

Bókmenntaborgin þakkar eigendum og rekstraraðilum húsanna fyrir afnot veggjanna og góða samvinnu: Lyf og heilsu og Læknamiðstöð Vesturbæjar (Hofsvallagata). Reitum og versluninni Iceland (Arnarbakki), Kaffibrennslunni (Laugavegur 21), Icelandair Hotels (Hotel Reykjavik Marina), Íþrótta- og tómstundarsviði Reykjavíkur (Laugardalslaug), Háskóla Íslands (Stakkahlíð).