Lestrarhátíð 2015

Svava Jakobsdóttir

SÖGUR HANDA ÖLLUM

Þema Lestrarhátíð 2015 tengdist 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og var kastljósinu beint að rithöfundinum Svövu Jakobsdóttur og röddum kvenna í bókmenntum. Hátíðin hét Sögur handa öllum í höfuð smásagnasafns Svövu sem ber þetta nafn og var safnið endurútgefið í kilju hjá Forlaginu í ritröðinni Íslensk klassík.

Safnið hefur að geyma þrjár bóka Svövu, Veizlu undir grjótveggGefið hvort öðru… og Undir eldfjalli. Það kom út á fyrsta degi Lestrarhátíðar, þann 1. október 2015. Úrval smásagna Svövu varð því aftur aðgengilegt íslenskum lesendum.

SVAVA JAKOBSDÓTTIR

Svava Jakobsdóttir (1930-2004) er einn af okkar fremstu rithöfundum. Hún fæddist þann 4. október 1930 og hefði því orðið 85 ára í október 2015.

Á afmælisdaginn frumsýndi leikhópurinn Háaloftið uppfærslu sína á leikriti Svövu, Lokaæfingu, í Tjarnarbíói og voru nokkrar sýningar í mánuðinum.

Nokkrum dögum síðar, miðvikudaginn 7. október, var menningarmerking Bókmenntaborgarinn til heiðurs Svövu afhjúpuð við Alþingishúsið, en Svava sat á þingi frá 1971 – 1979. Sonardætur Svövu afhjúpuðu skiltið og í kjölfarið leiddi Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur bókmenntagöngu um slóðir skáldkvenna í miðborginni.

Svava er þekktust fyrir smásögur sínar, en með þeim kvað við alveg nýjan tón í íslenskum bókmenntum. Meðal þeirra eru sögurnar „Saga handa börnum“ og „Eldhús eftir máli“, sem margir kannast við. Skáldsagan Gunnlaðarsaga þar sem Svava vinnur með goðsagnaarfinn er einnig eitt af hennar höfuðverkum svo og skáldsagan Leigjandinn. Konur eru yfirleitt í aðalhlutverkum í skáldskap Svövu, og með verkum sínum ljáði hún þeim nýja rödd.

Lesa má um verk Svövu og feril hennar hér á bókmenntavefnum, m.a. stuttan pistil frá Svövu sjálfri sem hún skrifaði fyrir vefinn árið 2001.

GREINAR OG UMRÆÐA UM SVÖVU OG VERK HENNAR:

Yfirlitsgrein Ástráðs Eysteinssonar um höfundarverk Svövu

Jón Karl Helgason: Besta smásagan eða ljótur viðbjóður? Um smásöguna Saga handa börnum.

Viðtal við Svövu Jakobsdóttur um bók hennar Leigjandinn á Rúv

Jakob S. Jónsson: Raunveruleiki handa barni …

KJÖRGRIPUR MÁNAÐARINS Í LANDSBÓKASAFNI ÍSLANDS – HÁSKÓLABÓKASAFNI í Október 2015

Svava Jakobsdóttir: Hvað er í blýhólknum?

Leikrit Svövu Jakobsdóttur, Hvað er í blýhólknum, var kjörgripur mánaðarins í Landsbókasafni í tilefni Lestrarhátíðar.

Svava Jakobsdóttir (1930-2004) sagði í viðtali við Þjóðviljann 27. júní 1974: „Ætli ég sé ekki fædd rauðsokka? Það má segja, að það hafi verið mitt fyrsta baráttumál í lífinu að verða tekin gild enda þótt ég væri stelpa!“
Í verkum sínum tók hún jafnan fyrir stöðu konunnar og misrétti kynjanna.

Fyrsta leikrit Svövu, Hvað er í blýhólknum? var frumsýnt í Lindarbæ hjá leikhópnum Grímu þann 12. nóvember 1970. Leikstjóri var María Kristjánsdóttir. Svava hafði á þessum tíma sent frá sér smásagnasöfnin 12 konur og Veizla undir grjótvegg og skáldsöguna Leigjandann. Leikritið Hvað er í blýhólknum? vakti mikla athygli þar sem það fjallar um stöðu konunnar í nútímanum, mál sem hafði verið mjög til umræðu á þessum tíma.

Handrit Svövu að Hvað er í blýhólknum? og fleiri handrit hennar eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (safnmark Lbs 136 NF). Í Kvennasögusafni Íslands eru varðveittar úrklippur og smáprent sem tengjast lífi hennar og starfi. Þessi gögn voru kjörgripir októbermánaðar í safninu í tilefni af lestrarhátíð Bókmenntaborgar 2015 þar sem verk Svövu Jakobsdóttur voru í öndvegi.

RADDIR KVENNA

Verkum annarra kvenna eða verkum um konur var líka lyft fram á hátíðinni og sjónum beint að skáldkonum okkar í samtímanum. Nýjar raddir í hóp íslenskra skáldkvenna heyrðust og bókmenntum á fleiri tungumálum en íslensku var gefinn gaumur. Hér á landi er hópur af Íslendingum sem skrifar bókmenntir á sínu móðurmáli sem er annað en íslenska og var sjónum einnig beint að margbreytileikanum í íslensku bókmenntalífi.