Bókamessa í Bókmenntaborg 2020

Bókamessa 2020
 
Bókamessa í Bókmenntaborg hefur markað hápunktinn í jólabókaflóðinu síðustu ár og á messunni hefur verið hægt að skoða nær alla bókaútgáfu ársins á einum stað. Bókamessa átti að vera dagana 21. og 22. nóvember 2020 í Hörpu. Henni var aflýst vegna Covid-19 faraldursins, en þó ekki alveg! Bókmenntadagskráin var færð á netið og er hægt að nálgast upptökurnar af bókmenntaspjalli og upplestrum áfram með því að smella á tenglana hér fyrir neðan. 

Bókaspjall beint til þín

Bókmenntaborgin sendi út bókmenntadagskrá á Facebooksíðu sinni alla sunnudaga og miðvikudaga frá 1. nóvember til 13. desember. 
Rithöfundarnir Sunna Dís Másdóttir og Sverrir Norland stýrðu bókmenntaspjalli við höfunda, útgefendur, þýðendur, bóksala, lesendur og fleiri sem taka þátt í jólabókaflóðinu með einum eða öðrum hætti.
Eins kynnti Bókmenntaborgin nýjar raddir í Bókmenntaborginni og sígildar raddir að utan, en 2020 komu út stór nöfn í bókmenntaheiminum þýdd á íslensku, sem er mikill fengur fyrir bókmenntalífið hér. Dagskrána í heild má sjá hér neðar á síðunni og við hvern dagskrárlið er að finna hlekk á upptöku svo horfa má á dagskrána hvenær sem er.

Útgáfu ársins 2020 má svo sjá í Bókatíðindum á vef Félags íslenskra bókaútgefenda www.fibut.is.

Bækurnar heim

Vefverslanir með bækur: 
eða beint frá bókaútgefendum:

 

bókaspjall beint til þín

Upptökurnar eru á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar og því hægt að sjá hvern viðburð hvenær sem er. Hlekkir á vídeóin fylgja hér fyrir neðan.

Bóksalar spjalla

Sunna Dís Másdóttir spjallar við bóksalana Elínu Eddu Pálsdóttur (Bókabúð Forlagsins), Óttarr Proppé (Bóksala stúdenta) og Rúnar Loga Ingólfsson (Eymundsson).

Sjá spjallið á Facebook.

Tómasarskáld

Þrír höfundar sem eiga það sameiginlegt að hafa hlotið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar kynna nýjar bækur sínar og lesa upp úr þeim. Þetta eru þau Ragnheiður Lárusdóttir (1900 og eitthvað, ljóðabók), Eyrún Ósk Jónsdóttir (Guðrúnarkviða, ljóðsaga) og Jónas Reynir Gunnarsson (Dauði skógar, skáldsaga). 

Sjá upptökuna á Facebook.

Höfundaspjall

Sverrir Norland spjallar við höfundana Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ólaf Jóhann Ólafsson og Sólveigu Pálsdóttur um nýútkomnar bækur þeirra, starf rithöfundarins og hvaðan sækja megi innblástur og uppörvun á erfiðum tímum.
Kristín Svava sendir frá sér ljóðabókina Hetjusögur en ljóðin orti hún upp úr ritinu Íslenskar ljósmæður sem kom út á árunum 1962 – 1964 í ritstjórn séra Sveins Víkings. Sólveig Pálsdóttir er þekkt fyrir glæpasögur sínar en Klettaborgin er sagnasafn sem byggir á minningum Sólveigar sjálfrar frá æsku og unglingsárum í sveit í Skaftafellssýslu. Skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting, gerist í Reykjavík og Tokyo samtímans og í London á sjöunda áratugnum. Sagan hefst í miðjum heimsfaraldri en fer svo með lesandann í ferðalag bæði í tíma og rúmi.

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að spjallið byrjar á mínútu 5).

Sigildar raddir að utan - I

Eftirtaldir þýðendur segja frá og lesa brot úr bókum sem komu út 2020 og sæta allar tíðindum í íslensku bókmenntalandslagi. 
Magnús Sigurðsson: Berhöfða líf eftir Emily Dickinson.
Hermann Stefánsson: Brjálsemissteinninn brottnuminn eftir Alejöndru Pizarnik.
Áslaug Agnarsdóttir: Gamlar konur detta út um glugga eftir Danííl Kharms (meðþýðandi er Óskar Árni Óskarsson).
Árni Óskarsson: Óskabarn ógæfunnar eftir Peter Handke.

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að dagskráin byrjar á mínútu 5).

Nýjabrum

Sunna Dís Másdóttir ræðir við fjóra höfunda sem eiga það sameiginlegt að vera að taka fyrstu skrefin sem útgefnir höfundar. Þetta eru þau Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson (500 dagar af regni, smásögur), Halla Þórlaug Óskarsdóttir (Þagnarbindindi, ljóðsaga), Kristján Hrafn Guðmundsson (Þrír skilnaðir og jarðarför, smásögur) og María Ramos (Havana, ljóð). Þrjú þeirra hutu Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2020.

Auk þess að ræða um verkin er vikið að spurningum um leið þeirra fram á ritvöllin. Hvaða stuðningur er í boði fyrir nýja höfunda og hverju skiptir hann? Og hvernig er að koma út með sín fyrstu verk á þessum undarlegu tímum?

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að spjallið byrjar á mínútu 5).

Nýjar raddir í Bókmenntaborg - I

Við kynnum nýja höfunda í jólabókaflóðinu 2020. Þetta eru höfundar alls kyns bóka sem eiga það eitt sameiginlegt að vera fyrstu eða með fyrstu verkum höfunda. Hér lesa eftirtaldir höfundar úr verkum sínum og segja stuttlega frá þeim.
Katrín Júlíusdóttir: Sykur. Glæpasaga.
Magnús Björn Ólafsson: Maram. Myndasaga.
Gústav Þór Stolzenwald: Vonarskarð. Fjölskyldusaga.
Nína Björk Jónsdóttir: Íslandsdætur. Bók um merkar konur í Íslandssögunni.

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að kynningin byrjar á mínútu 7:55).

Þýðingaspjall

Sverrir Norland fékk til sín þýðendur, ritstjóra og útgefendur til að ræða um stöðu þýðinga á Íslandi. Þetta eru þau Helga Soffía Einarsdóttir, Jón Karl Helgason, María Rán Guðjónsdóttir og Þórdís Gísladóttir. Hér ræða þau um stöðu þýðinga hér heima þessi misserin og einnig ber á góma einstök verk í útgáfuflóru ársins 2020. Sverrir er sjálfur forleggjari AM forlags sem leggur áherslu á þýddar barnabækur, María Rán er útgefandi hjá Angústúru sem heldur úti öflugri útgáfu þýddra heimsbókmennta og þær Helga Soffía og Þórdís áttu nokkrar þýðingar í flóði ársins auk þess að hafa langa reynslu sem þýðendur fjölbreyttra verka. Jón Karl er bókmenntafræðingur og einn ritstjóra ritraðarinnar Smásögur heimsins. Hann hefur líka skrifað um þýðingar, endurritanir og menningarbræðing ýmiss konar.

Sjá upptökuna á Facebook.

Sígildar raddir að utan - II

Eftirtaldir þýðendur og ritstjóri segja frá og lesa brot úr bókum sem komu út 2020 og sæta allar tíðindum í íslensku bókmenntalandslagi. 
Ari Blöndal Eggertsson: Skepnur eftir Joyce Carol Oats.
Áslaug Agnarsdóttir: Sögur frá Sovétríkjunum. Ýmsir höfundar.
Sölvi Björn Sigurðsson: Yeats. Safn ljóða eftir William Butler Yeats.
Guðrún Hannesdóttir: Dyrnar eftir Mögdu Szabó.
Jón Ólafsson (ritstjóri): Dýralíf eftir J.M. Coetzee. Gunnar Sigvaldason og Katrín Jakobsdóttir þýddu.

Sjá upptökuna á Facebook.

Höfundaspjall 

Sunna Dís Másdóttir spjallar við höfundana Dag Hjartarson (Fjölskyldulíf á jörðinni, ljóð), Sigríði Hagalín Björnsdóttur (Eldarnir, skáldsaga), Stefán Mána (Dauðabókin, skáldsaga) og Þóru Karítas Árnadóttur (Blóðberg, skáldsaga) um nýjar bækur þeirra og starf rithöfundarins.

Sjá upptökuna á Facebook.

Nýjar raddir í Bókmenntaborg - II

Við kynnum nýja höfunda í jólabókaflóðinu 2020. Þetta eru höfundar alls kyns bóka sem eiga það eitt sameiginlegt að vera fyrstu eða með fyrstu verkum höfunda. Hér lesa eftirtaldir höfundar úr verkum sínum og segja stuttlega frá þeim.
Helen Cova: Sjálfsát. Smásögur
Guðrún Brjánsdóttir: Sjálfstýring. Skáldsaga.
Kari Ósk Grétudóttir: Les birki. Ljóð.
María Elísabet Bragadóttir: Herbergi í öðrum heimi. Smásögur.

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að dagskráin byrjar á mínútu 5).

Heimurinn og við

Sverrir Norland spjallar við höfundana Alexander Dan (Hrímland), Auði Övu Ólafsdóttur (Dýralíf), Gísla Pálsson (Fuglinn sem gat ekki flogið) og Hildi Knútsdóttur (Skógurinn). Bækurnar eru ólíkar en taka allar með einum eða öðrum hætti á sambandi manns og náttúru eða umhverfis í fortíð, framtíð og jafnvel fantasíu.

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að spjallið byrjar á mínútu 5).

Nýjar raddir fyrir unga lesendur

Árið 2020 komu út bækur fyrir ungmenni eftir höfunda sem voru að senda frá sér sín fyrstu verk og höfunda sem hafa lítið eða ekki skrifað fyrir þennan aldurshóp áður. Eftirtaldir höfunda segja stuttlega frá sínum bókum og lesa úr þeim.
Rut Guðnadóttir: Vampírur, vesen og annað tilfallandi.
Kristín Björg Sigurvinsdóttir: Dóttir hafsins.
Björk Jakobsdóttir: Hetja
Ármann Jakobsson: Bölvun múmíunnar

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að kynningin byrjar á mínútu 5).

Lesið með fjölskyldunni

Síðasti viðburður Bókamessu beint til þín var fjölskyldustund með Sunnu Dís Másdóttur og Sverri Norland þar sem þau fengu til sín gesti og spjölluðu vítt og breitt um lestur í fjölskyldum með áherslu á samveru barna og fullorðinna. Gestir þeirra voru þrír ungir lesendur, þau Erna Tómasdóttir og systkinin Snæfríður og Sölvi Ragnarsbörn, þrír rithöfundar sem sendu frá sér bækur 2020, þau Gunnar Theodór Eggertsson, Yrsa Sigurðardóttir og hjónin Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir og loks feðgarnir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Egill Stefánsson, sem báðir eru miklir lestrarhestar.
Við þökkum Norræna húsinu fyrir að veita okkur afnot af barnabókasafni hússins fyrir upptökuna.

Sjá upptökuna á Facebook (athugið að dagskráin byrjar á mínútu 5).