Völundarhús

Höfundur: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 
Úr Völundarhúsi:

VÖLLI  Þú veist hvað staðurinn á að heita? (Hlær) Ég var búinn að hugsa og hugsa um það vikum og mánuðum saman þegar það blasti allt í einu við mér þegar ég var að skrifa nafnið mitt á pappírana þegar ég keypti alla verksmiðjubygginguna. (Færist allur í aukana, en DANÍEL sest niður kúguppgefinn og fær sér hressingu) - Það blasti við. Alveg augljóst. Ég heiti Völundur. Auðvitað hlaut húsið að heita Völundarhús! Blasir við! Hugsaðu þér hvað maður er stundum lengi að sjá það sem er fyrir augunum á manni.
  Ég opna smáhluta af þessu núna á annan. Annan í páskum. Smábút hérna uppi. Eitthvað fyrir utan fólkið. Byrja á því. Netkaffihús og svona.

(Tríóið; LEÓ, BARÐI og YLFA koma neðan úr kjallara og ganga hratt í gegn upp stigann sem liggur upp á aðra hæð. VÖLLI og DANÍEL taka ekki eftir þeim.)

  Ég ætla að gera þetta að miðstöð. Þetta verður ekki hús heldur miðstöð. Þetta hús verður tileinkað tuttugustu öldinni í þessari borg. Miðstöð minninganna! Öll þessi hæð þar sem við erum núna, verður tekin undir Miðstöð minninganna. Allir aðalstaðirnir. Þú kemur hingað og hverfur á vit minninganna. Draumanna. Minningar um kraft, brjálæði, tár, svita, fegurð, dans, dans, dans...
  Þetta verður ekkert dautt safn. Nei, þetta verður lifandi! Ég ætla að endurvekja minningar um dansinn sem löngu var dansaður, já dans... sem aldrei verður stiginn framar... Allir aðalstaðirnir. Hvað viltu? Glaumbæ! Vetrargarðinn! Jafnvel Gúttó! Þó svo þeir sem voru í raunveruleikanum á staðnum séu óðum að hverfa munu minningarnar lifa. Minnið hugsaðu þér. Minnið! Hvílíkt fyrirbæri!
  Manstu, nei þú ert of ungur, þú manst ekki eftir glitrandi vesti bassaleikarans í Glaumbæ í kaðli yfir sviðinu og salnum, þú manst ekki eftir fegurðarsamkeppnunum í Vetrargarðinum, fyrstu fegurðardrottningunni, hún var sú allra fegursta, hæglát, svarthærð, fínleg, útlendingsleg, ég á smáfilmubút af henni; hún var eins og fágaður köttur, hún er farin en hún er þarna... Og ekki bara skemmtistaðirnir... Tjörnin, Austurvöllurinn, höfnin... Verkamannabústaðirnir, þar er ég uppalinn.. Ég er með þetta allt í höfðinu. Ég get ekki hætt að hugsa um þetta allt.

(34-5)