Viðreisn í Wadköping

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1968

Markurells i Wadköping eftir Hjalmar Bergman, í þýðingu Njarðar. Inga Þórarinsson skrifaði formála.

Úr bókinni:

Þessi tilgáta, hversu djarfleg sem hún kann að sýnast, er sömu kostum búin og aðrar tilgátur. Hún skýrir allt nema sjálfa sig. Tilgátan um Markurell sem einn af dýrlingum helvítis skýrir hvers vegna þessi réttláti maður sem aldrei gerði flugu mein (að eigin sögn), gegn vilja sínum tældi svo margan mann út á breiðgötu spillingarinnar er engan veginn átt við Breiðgötu bæjarins, þótt hún að vísu liggi til útiveitingastaðarins Næpunnar. Með því er ekki heldur átt við þá staðreynd að velta Næpunnar margfaldaðist undir stjórn herra Markurells og að kaffi, te, súkkulaði, gosdrykkir ásamt vínarbrauðum og rjómakökum frá Wedblad (eða Lövgren) hurfu næstum algerlega í skuggann fyrir þeim gerjuðu, brenndu, og eimuðu drykkjum sem frá ómunatíð hafa verið taldir í þjónustu myrkravaldanna. Því að það var de Lorche sýslumaður og ekki Markurell sem árið 1895 í krafti formannsembættis í stjórn Næpunnar hf. sótti um og fékk vínveitingaleyfi fyrir téðan veitingastað.

Í því máli gegndi herra Markurell eki einu sinni hlutverki hins illa ráðgjafa. Næpan, sem var opin fimm mánuði ár hvert, var í hans augum smámunir einir, nánast tómstundastarf. Stjórn staðarins var að öllu leyti í höndum frúarinnar. Og ef áfengið í samvinnu við töfrafagurt útsýni yfir Wadköping með dómkirkju, höll, á og vatni sem blánaði í fjarska, hefði ekki megnað að lokka til sín fólk upp bratta brekkuna, þá hefði hinn ógeðfelldi herra Markurell ekki haft mikið aðdráttarafl. Kannski frúin. Við þekkjum að minnsta kosti eina manneskju sem með glöðu geði hefði lagt leið sína í sunnudagaskóla eða á stúkufund, efh ún hefði bara átt von á að hitta frú Markurell. Þetta var Barfoth lektor. Og þar sem Leontin aldrei af frjálsum vilja vék stundinni lengur frá vini sínum, þá höfum við þar með slegið tvær flugur í einu höggi.

Sjálfsagt voru margir fleiri undir sömu sök seldir. Fegurð frú Markurells var alþýðleg og þar af leiðandi ómótstæðileg flestum mönnum. Aðeins ólæknandi hugsjónamaður eins og lektor Barfoth gat haft í sér smekk og hugrekki til að líkja henni við lilju, prinsessu í álögum, lótusblóm, gazellu og guð veit hvað. Í flestra augum leit hún út eins og falleg mjaltasúlka. En okkur vitanlega hefur enginn dirfzt að halda þvi´fram að ljót aðalsfröken væri girnilegri til ásta en falleg mjaltasúlka. Kannski gæti ekki einu sinni falleg aðalsfröken verið viss um yfirburði sína. Hendur frú Markurells voru hörmulegar að lit og lögun. Olnbogar hennar voru eins og illa gróin sár, rauðir og þrútnir. Þegar hún opnaði munninn hrukku menn við að heyra grófleika raddarinnar. En þessi rödd barst fram milli hvítra, sterklegra tannaraða. Húðin í andlitinu var hvít, mjúk, vaxin örfínni ló. Ennið sviphreint og hrukkulaust. Hárið undurfallegt eins og áður er getið. Augun stór, dimmblá, algerlega tjáningarlaus og þrátt fyrir það, eða kannski einmitt þess vegna, einstaklega seiðandi.

(42-4)