Við landamæri

Útgefandi: 
Staður: 
Selfoss
Ár: 
2015
Flokkur: 

Úrval áður óprentaðra síðari ára ljóða Matthíasar.

Ástráður Eysteinsson prófessor valdi ljóðin, annaðist útgáfuna og skrifaði eftirmála.

Úr bókinni:

Myndastyttan
(æviágrip)

Lífeyrisþeginn við höfnina,
hann var að vestan, sagði í kaffinu, Nú
er Ingibjörg H. Bjarnason orðin
myndastytta við Alþingishúsið, ung
og föst fyrir og í flaksandi kjól
eins og Marilyn Monroe.

Hún fór eitt sinn í lautarferð
í Elliðaárdal, breiddi teppi
á fífilgula jörðina, en þá fór ungi
þingmaðurinn að vestan að leita hófanna
hjá henni, en hún sló á fingurna
og sagði, Nei engan dónaskap hér
úti í guðsgrænni náttúrunni,
skoðaðu heldur sóleyjarnar!

Þá slokknuðu úlfsaugun eins og tungl
í stormi.

Alllöngu síðar var þess farið á leit við
þingmanninn að hann tæki við ráðherraembætti,
en hann sagði, Nei ég ætla heldur að rífa þorskhausa
hér vestra, en rífast við þá fyrir sunnan.

(30)