Vetrarstríðið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988

Talvisota eftir Antti Tuuri í þýðingu Njarðar. Sjálfstætt framhald skáldsögunnar Dagur í austurbotni.

Um bókina:

Vetrarstríðið segir frðá því hvernig óbreyttur hermaður upplifir hinn skelfilega hildarleik þegar finnska þjóðin þurfti að verjast innrás sovétmanna veturinn 1939-40. Bóndinn Martti í Austurbotni er fyrirvaralaust kallaður til ,,auka þjálfunaræfinga og síðan sendur á vígstöðvarnar í Kirjálaeiðinu, þar sem finnski landherinn fékk það hlutverk aog tókst að stöðva framrás miklu fjölmennara og betur búins herliðs hinnar voldugu nágrannaþjóðar.

Úr bókinni:

Við grófum skotgrafir alla nóttina. Það upphófst heiftarlegt rifrildi um gröftinn á milli okkar og hjálparmannanna úr varaliðinu. Þeir sögðust ekki hafa fengið neinn svefn í marga sólarhringa, af því að þeir máttu grafa skotgrafir á hverri nóttu í fremri víglínunni, og þeir væru líka svefnþurfi. Á daginn hefðu þeir ekki getað sofið fyrir stórskotahríð og sprengjukasti. Yfirmenn þeirra höfðu fylgt þeim til okkar til vinnunnar, en farið so aftur til sinna bækistöðva, og þessir menn tóku ekkert mark á liðsforingjum annarra deilda. Þei rhurfu leiðar sinnar einn og einn eða í smáhópum í skjóli myrkurs heim í kojurnar sínar, og létu okkur um áhyggjurnar af greftrinum. Ekki fóru þeir að vísu allir, en flestallri. Herdeildarforingi okkar réð ekkert við þá. Hann var ekki fyrr búinn að snúa baki við þeim en þeir hlupu hálfbognir inn í skóginn. Og ekki gat hann heldur farið að skjóta þá. Okkur tókst ekki að halda í þá, og við höfðum ekki heldur tíma til þes. Við vissum að rússinn færi að skjóta um lei ðog birti af degi, eins og sá sem þarf að mæta í vinnuna á réttum tíma, og þá þyrftum við allir eitthvert skjól til að halda lífi.

Strákarnir sem komu frá hlustunarstöðvunum, sögðu okkur um nóttina að rússarnir væru á ferli með skriðdreka í skóginum hjá barnaskólanum og héldu vélunum heitum. Þegar kom að okkur að standa á verði, þá settum við Paavo verkfærin á bak við jarðhýsið og gengum eftir hlaupagröfinni, fórum svo upp úr henni og skriðum að hlustunarstaðnum. Báðir vaktmennirnir voru sofandi, og við urðum að vekja þá. Þeir vöknuðu stjarfir af kulda og fóru heim í jarðhýsið. Við rendum að hlusta eftir sérhverju hljóði. Við heyrðum greinilega moksturshljóðin frá okkar eigin bækistöð og raddir rússanna lengra í burtu, handan við Terenttilä-sléttuna og meira að segja frá hinum bakka Taipale-fljótsins.

Allt í einu kvað við gríðarleg skothríð úr rifflum fyrir framan okkur, hróp og gelt í vélbyssum og sjálfvirkum rifflum. Við fleygðum okkur flötum til jarðar og reyndum að leita skjóls. Við lögðum við hlustir til að heyra hvaðan þessi skothríð kæmi, en við gátum ekki verið vissir um það í myrkrinu. Ég skipaði Paavo að fara og tilkynna að nágranninn væri með eitthvað í bígerð og að sveitarforinginn ætti að koma og kanna aðstæður. Paavo fór en kom strax aftur, og sveitarforinginn með honum. Hann hafði mætt Paavo á leiðinni. Við hlustuðum allir þrír og heyrðum ákafan bardaga einhvers staðar ekki langt undan. Svo varð allt hljótt, og það hélst alveg til morguns. Það var ekki fyrr en daginn eftir að við fengum að vita, að strákarnir í fimmtu herdeildinni hefðu reynt að leggja undir sig allt skógarsvæðið í Pärssinen, en rússunum tókst að hrekja þá til baka. Það var ástæðan fyrir bardaganum.

(64-5)