Vesturfarinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Vesturfaranum:

Hann tekur andköf, rúgbrauðsbiti hrekkur skakkt í hálsinn, hann byrjar að hósta, hættir að heyra, sprettur á fætur til að fara og hækka í útvarpinu. En í sama bili glymur dyrabjallan. Þetta er löng, ákveðin hringing svo hann snýst á hæli í eldhúsdyragættinni og hraðar sér með hóstakjölti fram að opna.
 Á stigapallinum standa tveir náungar sem hann kannast ekkert við. Annar er lágvaxinn eldri maður, hinn ungur og hávaxinn, þeir eru báðir klæddir bláum iðnaðarmannasamfestingum.
 Stephan I. Stephanek? segir sá minni sem ræður greinilega fyrir þeim félögum.
 Mjaá, segir hann sprunginni röddu og verður að ræskja sig kröftuglega svo hún hljómi nokkurn veginn eðlilega aftur.
 Það er ég.
 Við erum komnir að tengja símann. Getur það ekki passað?
 En það er alltof seint, segir hann og finnur réttmæta reiði vaxa innra með sér.
 Það er ekki til neins að koma með hann núna.
 Betra seint en aldrei, segir sá stóri og sá minni bætir við borubrattur:
 Varla hefur þörfin minnkað ...
 Jú, ég hef ekkert við síma að gera, segir Stephan um leið og hann lokar á bláklædda símvirkjana. Ég er á förum til útlanda fyrir fullt og allt.
 En þegar hann hefur lagt hurðina aftur, þá fyrst tekur hann eftir því að undir hægra fæti hans liggur hvítt umslag. Hann tekur það upp, það er með merki íslenska flugfélagsins á framhliðinni og í því liggur farmiðinn hans eins og um var samið. Hann fer inn í stofu - áttafréttum útvarpsins er lokið svo það var ástæðulaust að hækka - og smeygir farmiðanum í innanávasa gráteinótta jakkans, en þar geymir hann fyrir póstkortið með Frelsisstyttunni frá Teresu og vegabréfið sitt. Síðan sest hann þar sem hann sat áður við borðið, bætir rjúkandi kaffi úr hitabrúsanum út í það hálfkalda í bollanum, en hefur ekki lengur lyst á rúgbrauði og lifrarkæfu.

(s. 86-87)