Vegurinn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010

Um þýðinguna

Skáldsagan The Road eftir Cormac McCarthy í íslenskri þýðingu Rúnars Helga.

Úr Veginum

Nýfallin snjóföl lá yfir skóginum öllum, á greinunum og í íbjúgum laufunum, sem þegar voru orðin fgrá af ösku. Þeir gengu þangað sem þeir höfðu skilið kerruna eftir og hann setti bakpokann í hana og ýtti henni út á veg. Engin för. Þeir stóðu þarna og hlustuðu í þögninni. Svo lögðu þeir af stað eftir gráu slabbinu á veginum, drengurinn við hlið hans með hendur í vösum.

Þeir þrömmuðu allan daginn, drengurinn án þess að segja orð. Síðdegis var slabbið bráðnað og undir kvöld var vegurinn orðinn þurr. Þeir stönsuðu ekki. Hvað voru þetta margar mílur? Tíu, tólf. Þeir höfðu stundum farið í skeifukast á veginum og notað fjórar stórar stálskífur sem þeir fundu í byggingavöruverslun en þær voru horfnar ásamt öllu öðru. Þeir gerðu sér náttstað í gili og kveiktu eld við lítinn klett og borðuðu upp úr síðustu niðursuðudósinni. Hann hafði geymt hana vegna þess að þetta var uppáhaldsmatur drengsins, svínakjöt og baunir. Þeir horfðu á matinn soðna hægt í eldinum og hann náði í dósina með tönginni og þeir borðuðu þegjandi. Hann þvoði dóma dósina upp úr vatni og gaf drengnum að drekka og það var allt og sumt. Ég hefði átt að fara varlegar, sagði hann.

Drengurinn svaraði ekki.

Þú verður að tala við mig.

Allt í lagi.

Þú vildir vita hvernig vondu karlarnir líta út. Nú veistu það. Þetta getur gerst aftur. Mér er ætlað að gæta þín. Guð fól mér það. Ég drep alla sem snerta þig. Skilurðu?

Já.

Drengurinn sat þarna með teppið upp fyrir haus. Eftir smá stund leit hann upp. Erum við ennþá góðu mennirnir? spurði hann.

Já. Við erum ennþá góðu mennirnir.

Og verðum það alltaf?

Já. Við verðum það alltaf.

Allt í lagi.

Um morguninn komu þeir upp úr gilinu og héldu út á veginn aftur. Í reyr sem hann fann við veginn hafði hann skorið flautu handa drengnum og tók hana upp úr vasanum og gaf honum. Drengurinn tók við henni án þess að segja orð. Ekki leið á löngu uns hann dróst aftur úr og stuttu síðar heyrði maðurinn hann spila. Formlausa tónlist handa komandi tíma. Eða kannski síðustu tónlistina á jörðinni, seidda upp úr ösku rústanna. Maðurinn sneri sér við og leit á hann. Hann var niðursokinn í að spila. Manninum fannst hann líkjast döprum og einmanalegum umskiptingi sem boðaði komu farandleikara í sýslu eða þorp og vissi ekki að úlfar höfðu gómaðleikarana sem höfðu verið á eftir honum.

(69-71)