Upphækkuð jörð

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Upphækkuð jörð er fyrsta skáldsaga Auðar Övu. 2. útgáfa kom út árið 2012.

Um bókina:

Sagan fjallar um stúlkuna Ágústínu sem getin er í rabarbaragarði í ágústmánuði á norðlægri eyju, býr í turnherbergi með gúlpandi hafið fyrir utan, tunglið ískyggilega nálægt og Fjallið eina að baki.

Úr Upphækkaðri jörð:

Það er dúnalogn og rigningarúðinn hangir lóðréttur í perlubandi í oftinu á meðan hún fetar listiliega einstigið á milli pollanna á hækjunum alla leið upp að verkstæðisdyrunum.

Vermundur hafði komið fyrir rólu handa henni í loftboita á verkstæðinu fyrir mörgum árum og það drýpur af henni þar sem hún sest í hana og lætur skólatöskuna og hækjurnar falla. Hún er orðin of löng í róluna og fæturnir flækjast hvor um annan á steingólfinu.

- Ég man ennþá lyktina af þér þegar þú fæddist. Enis og af brenndri karamellu. Þú skilur að mér finnst ég alltaf eiga dálítið í þér. Þú hefur ekkert verið að minnast á stíflaða vaskinn hennar Lovísu við neinn? Slíkt myndi bara skapa óþarfa misskilning, þú veist hvernig fólki hættir til að hártoga staðreyndir.

- Segðu mér frá karamellunni.

- Ég er búinn að því.

- Segðu mér það aftur og frá öllu þessu smálega og hinu með.

- Allt í lagi, en hægðu þá ferðina eða þú eyðileggur eitthvað fyrir mér. Þetta er brothætt.

Hann var á kafi í minjagripunum og gekk rífandi vel. Hafði dottið niður á að líma litaðar gærutjásur og pappírsaugu á smáhnöttótt fjörugrjótið og hafði vart undan að framleiða. Flestir bæjarbúar voru komnir með litaðar lukkutjásur í gluggana hjá sér, jafnvel fleiri en tvær og fleiri en þrjár, þar á meðal Nína, innan um dalíurnar. Nokkuð var um að útlendingar keyptu sér loðinn stein í gjafaöskju á bensínstöðinni í ferðalok til minningar um eyjuna.

- Það var í maí og ausandi rigning. Ég átti eiginlega bara leið hjá fyrir tilviljun. Nína veifaði til mín þar sem ég lúsaðist framhjá á moskvitsinum mínum sem ég hafði fengið fyrir slikk, enda varla nokkuð heilt nema boddíið, og gert upp sjálfur. Hún stóð á tröppunum og benti mér að koma. Ég var að koma af næturvakt og löngu orðið bjart, eiginlega alveg hætt að dimma á nóttunni. Móðir þín stóð á tröppunum við hliðina á henni. Þær bjuggu orðið saman. Reyndar bara þegar móðir þín kom heim á sumrin.

Ég var sautján ára og það var talsvert útstáelsi á manni þá, maður var svolítið að velta fyrir sér stelpunum. Móðir þín var fimm árum eldri en ég og ég hafði alltaf borið virðingu fyrir henni og fundist hún falleg. Þú ert líkari föður þínum. Hins vegar hef ég lítið séð af henni síðan hún fór í burtu. Er hún ekki enn í útlöndum í rannsóknum?

Nína bað mig um að keyra hana á héraðssjúkrahúsið, hún væria ð fara að eiga barn og sjálf væri hún bíllaus. Auk þess væri hún ekki með bílpróf og hefði aldrei átt bíl svo sem mér var fullkunnugt um.

Ég vissi ekki að hún ætti von á barni. Hún var meira ein og sér og með rosalegan áhuga á steinum og fuglum. En þau voru víst mjög ástfangin í nokkra daga, hún og pabbi þinn.

(47-9)