Upp á æru og trú

upp á æru og trú
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

um bókina

Þau eru bæði átján en eiga ekki margt sameiginlegt.
   Hún hefur hætt í níunda bekk. Hann er í Fjölbraut í Breiðholti, vinnur með skólanum og veit hvað hann vill. Hún hefur lengi búið við öryggisleysi og ratað í vanda sem hann hefur aldrei kynnst
   Eina skammdegisnótt brýst gengið hennar inn í sjoppuna þar sem hann vinnur og leiðir þeirra liggja saman. Auðvitað á hann að vísa lögreglunni á hana líka - en hann getur það ekki. Um leið hefur hann dregist inn í vafasama atburðarás - gegn vilja sínum, eða hvað?
   Upp á æru og trú gerist á einum sólarhring, átakamikil og spennandi saga sem á sér hliðstæður í íslenskum veruleika. Hún er sögð til skiptist frá sjónarhóli aðalpersónanna; hennar sem þekkir vímuna og veit allt um lygina og blekkinguna; hans sem uppgötvar að það er svo ótalmargt sem hann hefur ekki tekið með í reikninginn.

úr bókinni

 Þau voru þrjú og góndu á mig. Tveir náungar fyrir innan búðarborðið að moka sígarettupökkum og sælgæti í pappakassa og stelpa út við glugga.
 Ég stóð í gættinni og spurði með þjósti hvað væri eiginlega að gerast hérna þó að það lægi auðvitað í augum uppi. Mér datt bara ekkert annað í hug.
 Það varð fátt um svör.
 Sá sem var með kassann í höndunum starði á mig og gapti af undrun. Eins og hann hefði séð draug fyrir augunum allt í einu.
 Mér varð ekki um sel. Ég sá að ég hafði ekki mikið að gera í lúkurnar á þessum bolta ef hann færi að láta hendur skipta. Hann var höfðinu hærri en ég og þó átti ég að heita meðalmaður á hæð. Allt að því tröllslegur. Hárið rauðleitt og snöggklippt. Há og glansandi kollvik. Augun stingandi. Í svörtum, síðum vetrarfrakka, fráhnepptum. Og svörtum, uppháum leðurstígvélum. Greinilega foringinn í þessu gengi. Milli tvítugs og þrítugs. Hann reif Winstonpakka upp úr kassanum. Kramdi hann í greipinni sem var eins og hrammur. Henti honum í gólfið og bölvaði.
 Félaginn flýtti sér fram fyrir borðið. Lítill og renglulegur. Yngri. Eins og Ketill skrækur við hliðina á Skugga Sveini. Dökkt, klesst hár niður fyrir eyru. Sprungnar varir. Kölsvört sólgleraugu. Klóraði sér á nefinu. Hræddur og ráðvilltur.
 Þau mændu á mig. Þrúgandi þögn.
 Boltinn eins og njörvaður niður í gólfið. Félaginn á báðum áttum við dyrnar. Órólegur.
 Og stelpan við gluggann með skrýtið bros á vörunum. Eins og það hlakkaði í henni. Strauk hendi yfir dökkleitt, úfið hárið niður á axlir. Leit á víxl til vinanna. Mændi svo á mig. Í ljósbláum gallajakka yfir bol með breiðum þverröndum, bláum og hvítum. Og gallapilsi niður á mið læri. Á mínum aldri.
 Rúðan í hurðinni hafði verið brotin mélinu smærra. Ískaldur vetrarnæðingurinn átti greiða leið inn. Það voru glerbrot út um allt gólfið. Kalt. Gulur kaggi á gangstéttinni alveg við gluggann. Svartar strípur á húddinu og skottlokinu. Mústang.

(s. 15-16)