Undir Yggdrasil

undir yggdrasil
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Þorgerður Þorsteinsdóttir ól tvíbura þegar hún var sjálf vart af barnsaldri en mátti bíða lengi eftir óskabarninu sínu, Þorkötlu Dala-Kollsdóttur. Því harmþrungari eru atburðirnir eftir þingið á Þórsnesi þegar tátlan er aðeins sjö ára gömul – og öllum óskiljanlegir. Þorgerður kýs heldur að leita styrks hjá skapanornunum undir askinum Yggdrasil en Hvítakristi ömmu sinnar, Auðar djúpúðgu, og leitin að sannleikanum leiðir hana í siglingu austur yfir haf og seiðför í sali Heljar.

Undir Yggdrasil er skáldsaga úr sama sagnabrunni og Vilborg Davíðsdóttir sótti þríleik sinn um Auði, en fyrsta bindi hans var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sögulegar skáldsögur Vilborgar hafa notið mikilla vinsælda undanfarna áratugi enda varpa þær ljósi á örlög og aðstæður íslenskra kvenna.

Úr bókinni

Aldrei fyrr hefur Þorkatla Kollsdóttir séð jafnmarga samankomna á einum stað. Tjaldbúðirnar standa vítt og breitt um nesið og alls staðar er fólk á ferli, hlaupandi börn, hestar og hundar. Þrælar og ambáttir eru á þönum við að hlíta fyrirmælum, lagfæra þarf búðarveggi sem hrunið hefur úr og sperrur komnar að falli, strengja tjöld með stögum, ná í vatn, safna sprekum, snúa kjöti á teini yfir eldi, sjóða graut á hlóðum. Erillinn er slíkur að hana óar við, hafði ekki grunað svo mörg ókunn andlit þegar hún sárbað foreldra sína um að leyfa sér með á þingið í stað þess að sitja heima eins og ávallt fyrr. Nú sér hún hálfpartinn eftir óskinni og þorir varla að víkja frá hlið mömmu.
   Ína lætur sér fátt um finnast og horfir rósöm á allt sem fyrir gul kattaraugun ber með jafnaðargeði; hún virðist ekki smeyk við neitt fremur en vant er. Það er að segja, ekki neitt nema auðvitað vatn eða þannig hefur hún látið til þessa, hvæst aðvaranir ef Þorkatla vildi niður að ánni og enn frekar þegar hún hefur verið hjá frændfólkinu í Haukadal, bær þeirra rétt við stórt stöðuvatn. Þorkatla átti allt eins von á að Íma yrði eftir heima í Laxárdal, kærði sig ekki um sjóferðina, og sá hana heldur ekki um borð. En svo var engu líkara en hún hefði verið á undan þeim á Þórsnes því þegar báturinn var dreginn upp í naustið kom Þorkatla auga á hana sitjandi í fjörunni, bar skjannahvíta við svartan sandinn. Íma kemur og fer eins og henni sjálfri sýnist, því er hún farin að átta sig á og er létt að sjá hana. Læðunni fylgir öryggi, þrátt fyrir óáreiðanleikann. Og smám saman vex henni sjálfri kjarkur, svo margt að sjá og skoða.
   Þótt um skamman veg sé að fara á milli Þórsness og Hofsstaða innst í voginum þá hefur Hallsteinn Þórólfsson, eiginmaður Óskar frænku, samt sem áður reist tjaldbúð á þingstaðnum og búð Laxdæla stendur þar næst, upp við litla klettaborg sem veitir skjól fyrir norðanáttinni. Hrunið hefur úr stóra eldstæðinu sem þjónar báðum fjölskyldum og yngri börnin eru látin aðstoða manfólkið fyrir lagfæringarnar; þau eldri hafa eitt af öðru horfið út um víðan öll, of fullorðin fyrir slík viðvik. Þegar búið er að sækja vatn, stafla upp nægum eldivið og farið að loga glatt undir potti á krók yfir eldinum, fær Þorkatla leyfi mömmu, treglega þó, til að fylgja frændum sínum yfir nesið, út að sléttunni vestan við þingborgina, yst á tanganum. Þar eru kaupmenn sagðir vera að koma sér fyrir og bera upp varning úr hafskipinu sem liggur fyrir akkerum skammt frá landi. Knörrinn er of stór til að komast alla leið á milli skerja og boða innst í grunnan voginn og kæna hefur verið í ferðum milli skips og lands frá morgni.
   Synir Óskar og Hallsteins fá stranga fyrirskipun um að sleppa frænku sinni ekki úr augsýn. Þorsteinn, sá eldri, kallaður surtur af dökku yfirbragðinu, stynur og rennir augunum mæðulega til himins og er Þorkötlu þó ekki nema árinu eldri, átta vetra gamall, að vísu höfðinu hærri. „Komdu þá,“ segir hann óþolinmóður og er rokinn af stað á hlaupum um leið og þau eru komin í hvarf af næstu tjaldbúð.
   Hinn, Þorgils örn, er á sama árinu og hún sjálf, og þó raunar lægri vexti, jafnljós og hinn er svartur. Hann er öllu vingjarnlegri, tekur um hönd hennar og ætlar að leiða hana. „Ég skal gæta þín svo þú villist ekki.“ Eins og hægt sé að tapa áttum hér. Sjórinn lykst um nesið á þrjá vegu og til austurs blasir Helgafellið við sjónum, stendur stakt upp af landinu. Föðurafi strákanna hefur bannað að nokkur líti þangað óþveginn. Í fjallinu búa landvættir sem engum lúta fremur en Þórólfur Mostrarskegg sjálfur, goði á Þórsnesi og mestur höfðingi við Breiðafjörð, höfðu bræðurnir sagt henni roggnir. Engu lífi má heldur tortíma í hlíðum Helgafells, hvorki fé né mönnum nema sjálft gangi brott, til að styggja ekki hinar huldu vættir landsins. Hvorugur kunni þó skýringu á forboðinu við að líta fjallið nema þveginn; kannski eiga álfarnir hægara með að læsa í óhreinan mann klónum, áleit Þorsteinn surtur. Ekki að Þórkötlu stafi nein hætta af. Hér jafnt sem heima hefst hver dagur á andlits- og handaþvotti upp úr ísköldu ferskvatni, sóttu af ambáttum í morgunsárið. Hún losar tak Þorgils á hendi sinni ögn móðguð; hún er enginn óviti. Fylgir samt fast á hæla honum í humáttina á eftir Þorsteini og heldur þétt um brúðuna Emblu sem hún skilur aldrei við sig, skorin úr tré af Grími afa. Hún svipast um eftir Ímu og léttir þegar hún sér hana skjótast á undan þeim. Búðirnar standa í nokkuð reglulegum röðum með breiðum götum á milli, veggirnir úr torfi og grjóti og stórum segldúkum tjaldað yfir mæniása úr tré. Tjöld standa auk þess víða, fest niður með stögum sem þarf að gæta sín á að hrasa ekki um. Þingið er enn fjölmennara en í fyrra hafði Þorkatla heyrt Ósk segja mömmu, stöðugur straumur af fólki yfir hafið, bæði úr löndum Vestmanna og austan úr Noregi, og alls kyns krytur óhjákvæmilegur sem leysa þarf úr, mest um landamerki eða eignarhald á skepnum sem far þar sem þeim sýnist.
   Íma smeygir sér skemmstu leið, milli búða, staga, eldstæða og soðkatla, og skáskýtur sér jafnvel á milli fóta fólks en enginn verður hennar var utan ein kona, roskin með græna skuplu, sem bregður svo við að hún missir úr höndum sér körfu fulla af sprekum og hrópar upp yfir sig, næstum fallin við.
   „Fylgir þessi þér, telpukorninu?“ spyr hún hvasst og otar fingri að Þorkötlu sem glennir upp augun af undrun. Og flýtir sér að jánka; kona virðist skelfilega reið.
   Þorgils örn horfir á þær til skiptis, ekki síður hissa. „Ég á að fylgja henni,“ tautar hann svo og potar í grasið með skótánni, „Þorkatla er litla frænka mín.“
   „Er það svo, já? Þorkatla Kollsdóttir og Þorgerðar í Laxárdal?“
   Þau kinka bæði kolli og ásjóna konunnar mildast í brosi svo að í ljós koma eyddar framtennur. „Safnið saman hrísinu, greyin mín, svo ég þurfi ekki að bogra við það.“
   Börnin hlýða í flýti, Íma auðvitað hvergi sjáanleg lengur og því síður Þorsteinn surtur.
   „Skilið því til mæðra ykkar að þið hafið hitt Björgu ömmusystur ykkar, Eyvindardóttur,“ segir hún við þau þegar karfan er orðin full. „Við ættum að finnast áður en þingið er úti.“
   Þorkatla horfir áhyggjufull upp til hennar; eiga þau von á frekari snuprum?
   En hún brosir við. „Engar áhyggjur, það er ekki við ykkur að sakast þótt mér bregði við að sjá hér óvænt mjallhvítan Freyjukött.“

(s. 49-52)