Una

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 


Um bókina:Fjögurra ára gamall drengur hverfur í skyndilegum snjóbyl á íslenskum haustdegi. Brátt er hann talinn af. Una móðir hans er á öðru máli. Hún heldur áfram leitinni að syni sínum. En þegar röð dularfullra vísbendinga berast að henni veit Una ekki lengur hvort hún er komin á slóðir drengsins – eða hvort hún er að missa vitið. Getur verið að yfirnáttúruleg öfl séu á kreiki?Úr Unu:Ofarlega í kirkjugarðinum heyrði hún lágværa karlmannsrödd berast til sín. Una hægði gönguna og leit til hliðar. Innan um hávaxin birkitré sá hún manni bregða fyrir. Hún gat ekki stillt sig um að nálgast hann varlega. Um síðir sá hún að þetta var undarlegi maðurinn sem hún hafði mætt á kirkjugarðsstígnum skömmu áður. Hann var greinilega sjálfur að heimsækja gröf í hjarta elsta hluta garðsins.Una nam staðar. Hún sá ekki betur en maðurinn ætti í hrókasamræðum við einn legsteininn. Aftur fannst Unu eins og hún þekkt manninn. Hvaðan var henni aftur á móti ómögulegt að muna. Hún ákvað að laumast nær í von um að geta svalað forvitni sinni. Í þennan afskekktasta hluta garðsins hafði hún aldrei komið áður. Legsteinarnir voru mun eldri og fornfálegri en gróðurinn margfalt þykkari. Hann myndaði nokkurs konar varnarvirki utan um hverja legsteinaþyrpingu fyrir sig. Svo lítil birta barst gröfunum að þarna var eiginlega hálfrökkur og þögnin alger.Una fór eins hljóðlega og hún gat til að vekja ekki athygli mannsins. Þegar hún kom að umfangsmiklu grenitré ákvað hún að nema staðar. Maðurinn var hins vegar enn of langt í burtu til að hún greindi orðaskil í máli hans. Honum lá þó bersýnilega mikið á hjarta og talaði sleitulaust við legsteininn. Eitt andartak velti Una því fyrir sér hvort hún myndi enda eins. Yrði hún sextug að spjalla við legstein Péturs á meðan aðrir gestir njósnuðu um hana og vorkenndu henni?Maðurinn lauk við einræðu sína. Hann kvaddi legsteininn með því að signa sig og hélt á brott. Hann stefndi beint í áttina að trénu sem Una faldi sig á bak við. Hún vildi alls ekki að hann sæi til sín að njósna um hann. Henni datt ekkert annað í hug en að stökkva inn í næsta runna. Hún þurfti að bíta á jaxlinn til að æmta ekki undan sársaukanum sem greinar runnans ollu en tókst að steinþegja. Maðurinn nálgaðist hratt. Una hélt niðri í sér andanum en hreyfði hvorki legg né lið. Maðurinn var nú kominn að runnanum en sem betur fer gekk hann hiklaust framhjá. Hann hafði ekki tekið eftir henni. Una andaði léttar og fylgdist með honum hverfa upp stíginn.Loks steig hún út úr runnanum. Nokkrar rispur voru á höndum hennar eftir greinarnar og það hafði blætt örlítið úr verstu skeinunum. Una lét sér það í léttu rúmi liggja. Hún gekk að legsteininum sem maðurinn hafði staðið hjá, djúpt í þöglu myrkri kirkjugarðsins. Þegar hún kom nær sá hún að grafreiturinn var illa farinn. Mosi óx á granítlegsteininum og huldi hann að mestu leyti. Hnullungur hafði molnað úr efsta hluta hans og lá nú í gróðurlítilli moldinni á leiðinu. Una staðnæmdist við gröfina. Hún þurfti að rýna í mosann til að sjá nafnið á legsteininum. Hún trúði ekki sínum eigin augum. Djúpstæð skelfing greip hana.Una Helga Gottskálksdóttir.(47-9)