Tóta og táin á pabba

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Úr Tóta og táin á pabba: (Mynd Guðbergur Bergsson)

Tóta hló hæðnislega og ætlaði að fussa aftur út í loftið. En áður en henni tókst að fussa almennilega, þá festi hún blund. Þannig var, þó Tóta hefði ekki hugmynd um það sjálf, að hún var sofnuð, svefninn kom svo óvænt yfir hana. Svefninn var alveg eins og vakan, en samt er svefninn svefn. Tótu dreymdi að hún væri vakandi. Stundum hendir það þann sem sofnar. Börnunum finnst eins og þau séu glaðvakandi. Draumarnir hafa bara breyst dálítið. Draumarnir verða mjúkir í svefni og það teygist úr þeim, en í vöku eru draumarnir hörð leikföng, sem hægt er að hrifsa og brjóta. Þegar börnin festa blund fer þau að dreyma, og þau halda að draumarnir séu veruleiki. Stundum er svefninn þannig. Nú heyrði Tóta í draumi að einhver var að rjála við dyrnar á herberginu hennar. Tóta vissi ekki að hún svaf, en hélt að hún væri vakandi. Hún reis örlítið óttaslegin upp í rúminu. Tóta var orðin talsvert myrkfælin. Hún rauk upp og sá sér til skelfingar dálítið, svo hún dó næstum af ótta. Tóta sá loðna löpp sem einhver hafði rekið inn um dyrnar á herberginu hennar. Nú varð telpunni ekki um sel. Hún hríðskalf og hélt undir eins að löppin væri á alvörudraug, sem ætlaði inn og mundi éta hana. Samt herti Tóta upp hugann. Hún vissi að hún átti að herða upp hugann ef hún yrði hrædd; og hún kallaði höstug: Snautaðu burt, loðna löpp! Það er komin nótt og mig langar að lúra í friði.

(s. 7-8)