Töff týpa á föstu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Anna Cynthia Leplar myndskreytti.

Úr bókinni

Hann situr með hönd undir kinn í síðasta tímanum, það er stærðfræði og kennarinn er að útskýra liðastærðir, hann hlustar ekki, situr bara og krassar eitthvað út í bláinn í reikningsbókina og hugsar.
 Hvað þetta er allt skrýtið og framandi!
 Skrýtið að vera kominn í nýjan bekk allt í einu.
 Skrýtið að vera fluttur á nýjan stað.
 Þetta gerðist allt svo skyndilega.
 Hann er varla farinn að átta sig á þessari nýju tilveru.
 Þau töluðu heilmikið saman, hann og mamma hans þegar pabbi hans var dáinn og hún sagði honum að þau yrðu að byrja nýtt líf saman, þau tvö. 
 Hann skildi það alveg.
 Hún treysti sér ekki til að borga af íbúðinni sem þau áttu, sagði hún, þau yrðu að finna sér aðra minni.
 Þau töluðu saman eins og tvær fullorðnar manneskjur tala saman.
 Og þau fóru á stúfana, töluðu við marga fasteignasala, skoðuðu margar íbúðir og fundu að lokum eina sem þeim leist vel á, notalega þriggja herbergja íbúð í þessu hverfi.
 Hún fékk vinnu í stórmarkaði frá níu til sex, hann byrjaði í nýjum skóla.
 Þau byrjuðu nýtt líf saman.

Gulli hnippir í hann þegar bjallan hringir og spyr hvort hann sé ekki til í að koma heim með sér í tölvuleiki.
 Elías lyftist upp, hvort hann er!
 Það kemur á daginn þegar málin eru rædd nánar að Gulli er forfallinn tölvuleikjasjúklingur. Hann liggur í tölvuleikjum alla daga, segir hann; hann er bara einn heima á daginn, pabbi hans og mamma vinna bæði úti og hann á engin systkini.
 - Ég hef ekkert pælt í tölvum, segir Elías. En bróðir minn á eina og er alveg sjúkur.
 Þeir taka undir sig stökk út í rigninguna. Það er ekki langt að fara heim til Gulla, hann á heima í næstu blokk við skólann.
 Lífið er ekki lengur liðastærðir, það er Galaxians, skotbardagi í himingeimnum, Pssst, eiturhernaður gegn skorkvikindum sem leggjast á blásaklaus blóm og síðast en ekki síst Raiders, vígvélar í háloftunum skotnar á færi.

(s. 21-2)