Tími nornarinnar

tími nornarinnar
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

Fjórða bókin í flokknum um Einar blaðamann.

um bókina

Á Hólum í Hjaltadal ætla menntaskólanemar frá Akureyri að frumsýna Galdra-Loft og Einar blaðamaður mætir á vettvang til efnisöflunar. Hann hefur nú yfirgefið sínar fornu veiðilendur, löggufréttir af höfuðborgarsvæðinu, og er fluttur til Akureyrar því auka skal útbreiðslu Síðdegisblaðsins á uppgangstímum á Norður- og Austurlandi. 
   Á leiðinni frá Hólum þarf Einar að sinna nýrri frétt: Kona frá Akureyri hefur fallið útbyrðis í flúðasiglingu, einni af hinum vinsælu óvissuferðum starfsmannafélaganna í landinu. Skömmu síðar er hún látin.
   Þetta er fyrsta en ekki síðasta dauðsfallið í ískyggilegri atburðarás þessarar nýju sakamálasögu um ævintýri Einars blaðamanns.

Sjá umfjöllun um Tíma nornarinnar

Úr bókinni

Þegar ég rölti yfir torgið á leið að rauðmálaða bárujárnshúsinu með borðanum: Sannleikurinn er sagna bestur, hugsaði ég til Gunnsu og ferðafélaga hennar á hinu Ráðhústorginu.
   Ég fer á fréttavefina og finn tilkynninguna úr útvarpinu þar sem Skarphéðinn Valgarðsson var beðinn um að hafa samband. Ég velti fyrir mér hvort ég eigi að hringja í Örvar Pál eða Ágústu og vel Ágústu. Hún hafði sagst vera á öðru ári í skólanum, lágvaxinn orkubolti, freknótt og fjörleg, með snoðað höfuð en bar á æfingunni gráa kollu í hlutverki biskupsfrúarinnar á Hólum.
   Hún svarar lafmóð með andköfum.
   „Sæl vertu," segi ég. „Einar á Síðdegisblaðinu. Ég skrifaði greinina um Galdra-Loft í blaðið í dag"
   „Já, sæll," svarar hún en var auðheyranlega að vona að það væri einhver annar.
   „Ég heyrði tilkynninguna í útvarpinu í hádeginu. Er Skarphéðinn fundinn?"
   „Nei. Við vorum að fresta frumsýningunni. Gátum ekki haft þetta í lausu lofti lengur."
   „Er farið að leita að honum?"
   „Við höfum verið að leita í allan morgun. Og nú er löggan komin með málið."
   „Hvað heldurðu að hafi gerst?"
   Hún er greinilega miður sín og andar hratt. „Ég veit það ekki. Það var haldið partí eftir generalprufuna í gær. Hann var þar um tíma en hefur ekki sést síðan."
   „Og ekkert óeðlilegt eða óvenjulegt í gangi?"
   „Ekki svo ég viti."
   „Getur hann ekki hafa sofnað einhvers staðar og gleymt sér. Eða lent á einhverju skralli sem enn stendur."
   „Þú þekkir ekki Skarphéðin. Hann er sá alpottþéttasti."
   „Hvar býr hann?"
   „Hann flutti af heimavist í haust og leigði sér íbúð í miðbænum. Hann svarar ekki bjöllunni."
   Ég þakka henni fyrir með þeim máttlitlu orðum að við verðum að vona það besta.
   Ég hringi í Akureyrarlögregluna.
   „Við erum nýbúin að lýsa eftir honum og leit að hefjast. Meira get ég ekki sagt á þessari stundu," segir konan sem verður fyrir svörum. „Hann hefur ekki verið týndur í langan tíma, en aðstæður eru óneitanlega sérstakar. Með þessa frumsýningu í kvöld og allt það"
   „Er búið að fara inní íbúðina þar sem hann býr?"
   „Ég get ekki sagt þér meira en ég hef nú þegar gert."

(s. 94-95)