Þetta eru asnar Guðjón

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

Úr Þetta eru asnar Guðjón:

 Við Guðný settumst hjá Tryggva sem sat þarna einn í nýjum grænum terlínbuxum og með samlita brennivínsflösku fyrir framan sig:
 - Ég skildi kellinguna eftir heima, sagði hann hróðugur, sló mig klaufalega í bakið, gaut augunum á Guðnýju og sendi mér leyndardómsfullt augnaráð. Hann var kominn dáldið oní flöskuna og var alltaf að hvetja mig til að fá mér sopa dræ.
 - Þannig er það best, þannig á maður að drekka brennivín maður, sko helst dræ úr pela, svona rassvasavolgt maður. Svo fór hann að segja mér hallærislegar frægðarsögur af sjálfum sér, hvernig hann hefði neglt kellingu þegar hann var í sveit í gamla daga, djöfull hafði hann svarað prófessornum flott þegar hann var í tíma um viðskiptarétt um daginn, „hann fríkaði gjörsamlega út maður!“, og allar flöskurnar sem hann hafði drukkið um æfina maður, stundum tvær og þrjár í einu og vaknað svo upp með tremma, séð pöddur og marflær uppum alla veggi, „ég hélt ég væri orðinn geðveikur maður!“
 Svo hallaði hann sér öðru hvoru að mér og hvatti mig til að gera bara einsog hann, losa mig við „kellinguna“ eitt kvöld og ERGÓ!, fara á almennilegt bús!
 Ergó var uppáhaldsorðið hans þegar leið á kvöldið. Guðný var löngu hætt að hlusta á okkur og sest við borð hjá einhverju kunningjafólki í jarðfræðinni. Einhverjir hægrimenn eða vinstrimenn sem ég kannaðist við af myndum í stúdentablaðinu komu inn og tróðu sér við borðið hjá okkur Tryggva, það var eina lausa plássið í salnum. Tryggvi var farinn að rausa stanslaust um „kellinguna“ einsog hann væri einhver sjarmör á hvítum hesti sem hefði frelsað hana úr klóm drekans. Pólitíkusarnir við borðið voru hættir að tala saman með samsærishvísli, farnir að hlusta á þvaðrið í Tryggva og litu glottandi á okkur. Ég stóð upp og sagði Tryggva að ég þyrfti að skreppa aðeins frá.

(s. 112)