Syndarinn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Um bókina:

Gæfunni er misskipt milli málaranna tveggja, Davíðs Þorvaldssonar og Illuga Arinbjarnar: Davíð er á leið í fangelsi eftir voðaverk en Illugi slær í gegn í New York með risastór og pólitísk málverk. Honum virðast allir vegir færir en þegar nýtt efni tekur að sækja á hann leiðist hann inn á hættulega braut í list sinni og lífi auk þess sem fortíðin vitjar hans og knýr hann til að horfast í augu við sjálfan sig. Leiðir þeirra fjandvina liggja svo saman á ný á óvæntan hátt.

Syndarinn er fjölskyldusaga sem gerist á seinustu áratugum síðustu aldar og er sjálfstætt framhald Málarans sem kom út árið 2012.

Úr bókinni:

Illugi tók lyftuna niður á veitingastaðinn í kjallaranum á Chelsea. Hann litaðist um. Mörg borðanna voru setin en Helga var ekki komin. Morgunverðarhlaðborðið var svo stórkostlegt að það minnti hann á Foodscape eftir Erró.

– Table, sir? spurði þjónn og fylgdi honum að borði.

Illugi leit á rekkann þar sem blöðin voru vön að hanga á rimlunum. – Eru dagblöðin komin? spurði hann. Honum var svo mikið niðri fyrir að við lá að röddin titraði.

– Já, sagði þjónninn – en það virðist sem gestirnir séu að lesa þau.

Illugi gekk að blaðaborðinu, tók disk og fór að raða á hann: amerískar pönnukökur, skinkusneið, steikt pylsa, spælt egg og melónusneið. Hann settist og hellti kaffi í bollan sinn. Hann skimaði um salinn. Gömul karlugla var að lesa The New York Times, og fór sér að engu óðslega.

Og þá gekk Helga í salinn og hann varð hamingjusamur þegar hann sá hana. Hún var með blað undir handleggnum, opnaði það og lagði fyrir framan hann á borðið áður en hún settist og sagði: – Hvað sagði ég ekki? Þú ert búinn að meika það í Ameríku. Þú ert orðinn heimsfrægur! Og svo hló hún.

– Sestu, sagði Illugi og hún dró út stól. Hann lyfti blaðinu, fyrirsögnin var flennistór: An Icelandic Painter tears the guts out of modern Art with his magnificent exhibition at MoMa.

Með dómnum fylgdi mynd af Illuga. Hann stóð við Beinagrindur Bruegels. Hann minntist þess ekki þegar myndin var tekin. Líkast til hafði hann verið undir meira álagi en hann áttaði sig á þegar ljósmyndarinn og blaðamaðurinn komu á sýninguna.

– Ég sagði þér það í gær, sagði Helga áköf. – Þú ert orðinn heimsfrægur í alvöru!

(42-3)