Sveinn Björnsson forseti : Ævisaga

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994

Af bókarkápu:

Kristján Eldjárn sagði um Svein Björnsson að hann hefði átt sér ,,æviferil nútímamanns og verið ,,maður hins nýja tíma í íslensku þjóðlífi. Þetta eru orð að sönnu. Sveinn Björnsson er brautryðjandi, og fáir hafa gerst frumkvöðlar á jafn mörgum og mikilvægum sviðum. Hann hafði forustu um stofnun þjóðþrifafyrirtækja, eins og til dæmis Eimskipafélags Íslands, þegar Íslendingar voru að hasla sér völl á nýjum vettvangi, þar sem Danir höfðu áður verið einir um hituna. Hann var annar tveggja fyrstu hæstaréttarlögmanna hér á landi og átti þátt í að leggja drög að Hæstarétti Íslands. Enn er þó ótalið það sem telst hið eiginlega ævistarf hans: Hann var fyrsti og lengi eini sendiherra lands síns og mótaði íslenska utanríkisþjónustu; hann var fyrsti og eini ríkisstjórinn - og loks fyrsti forseti Íslands. Slíkur maður hlýtur að skipa háan sess í sögu þjóðarinnar.

Úr bókinni:

Bandarísk herflugvél hefur sig á loft af Reykjavíkurflugvelli og flýgur yfir höfuðstað hernumins lands, þar sem brún braggahverfi eru eins og moldarflög á grónu túni. Hvarvetna blasa við tákn og mengun hersetunnar: sandpokavirki og gaddavírsgirðingar.
Við lækjargötu stendur hátt hlaðið lofvarnarbyrgi; í baksýn er Menntaskólinn í Reykjavík, en í forgrunni stytta af Jónasi skáldi Hallgrímssyni.

Á stundum koma þeir tímar í sögu þjóða að líf þegnanna hjakkar í sama fari ár eftir ár; breytingar verða smátt og smátt með hægfara þróun. En fyrir ber að atburðir gerast óvænt og umturna mannlífi um gjörvalla heimsbyggð; skyndilega er hvaðeina í deiglu og hvergi fast land undir fótum.

Í heimsstyrjöldinni síðari verða aldahvörf á Íslandi. Með hernámi landsins á björtum og hrekklausum vormorgni breytist nálega allt í einni svipan: Daglegt líf, siðferði, umhverfi og efnahagur almennings; stjórnskipan og viðhorf til mála á innlendum og erlendum vettvangi.

Snögglega standa vonir til að margþráð takmark náist í aldalangri sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Það er mánudagur 30. nóvember 1942.