Svarti prinsinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992

Iris Murdoch: The Black Prince.

Úr Svarta prinsinum:

Shakespeare gerir hér sálarkreppuna, sem snýst um það hver hann er, að algjörri þungamiðju listar sinnar. Hann umbreytir eigin þráhyggju í svo aðgengilega mælsku að hvaða barn sem er getur muldrað hana. Hann leikur það að skíra talið, og samt er líka eitthvað broslegt í því, nánast brella, eins og stóreflis orðaleikur, eins og langur brandari sem merkir nánast ekkert. Shakespeare æpir af kvölum, hann engist, hann dansar, hann skrækir og hann kemur okkur til að skrækja og hlæja svo við losnum úr víti. Að vera er að leika. Við erum hver leikgríman undir annarri og samt erum við hreint ekki neitt. Endurlausn okkar er sú að það að tala er himneskt þegar öllu er á botninn hvolft. Hvaða hlutverk langar alla leikara að leika? Hamlet.
Einu sinni lék ég Hamlet, sagði Julian.
Hvað þá?
Ég lék Hamlet einu sinni, í skóla, þegar ég var sextán ára.
Ég hafði lokað bókinni og lagt báðar hendur flatar á borðið. Ég einblíndi á stúlkuna. Hún brosti og þegar ég endurgalt það ekki, þá flissaði hún og roðnaði og ýtti hárinu aftur með bognum fingri. Ég var ekki mjög góð. Hvernig er það Bradley, er táfýla af mér?
Já, en það hefur eitthvað við sig.
Ég skal fara aftur í stígvélin. Hún teygði fram bleikan fót og þrýsti honum inn í fjólubláa slíðrið sitt. Fyrirgefðu að ég skyldi taka fram í fyrir þér, viltu ekki halda áfram.
Nei. Leikritið er búið.

(s. 153-154)