Speglabúð í bænum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Speglabúð í bænum:

Minnisgreinar um Kennarann 

 Þegar ég man fyrst eftir var hann bara þarna og ívið nálægari utan sjónmáls en innan þess og eiginlega hefur það ekkert breyst síðan. Hann var Kennarinn með stórum staf og greini og svo hafði alltaf verið og yrði og auðvitað voru þá kennarar ekki öðruvísi.

-- Hann var stærri í framan en aðrir og það var líka enn að stækka á honum andlitið þó það gerðist reyndar svo hægt að maður gleymdi því iðulega en þetta var samt ískyggilegt vegna þess að skýringin hlaut að vera sú að alvara lífsins ætti það sem sagt til að sækja svona látlaust fram í andlitið og þá var nú ansi hætt við því að hún vildi síga æ meira í með árunum og þá svo óstöðvandi trúlega að engu breytti þó stundum hefðu gagnverkandi svipbrigði kannski betur í bili.

-- Hann var líka alveg óútreiknanlegur í framan þar til ég tók eftir því að hann var á svipinn eins og veðrið sem reyndar var ekki alveg rétt heldur leiddi reynslan í ljós að hann var á svipinn eins og horfurnar og í þeim voru jafnan blikur á lofti enda gekk það alltaf eftir á endanum að hann brast á með eitthvað bölvanlegt og þetta er sem sagt skýringin á mínu ríkulega safni minninga sem eru yfirskyggðar ótíð og afbrigðilegum hretum en blíða aftur á færri og fæstar þeirra nema laglegheit á himni og jörðu sem snöggvast upp úr veiðiskap og slíku sem maður á við einn eða notalegum vinnulúa undir kvöld. Og þá kemur upp í hugann þokubakki á liðugri siglingu inn flóann og breiðist yfir fljótið og mýrina að bænum og engin ástæða til að orðlengja það nema Kennarinn er að leggja sig á bekknum og rétt eins og þokan ber af blámanum og landinu ætlar hann bara ekki að hætta að síga í og hljóðlaust auðvitað nema kveinstafir gormanna raðandi sér upp eins og gömul girðing og sér ekki fyrir endann á henni lengur þegar hann er loks kominn út um alla stofu þó mest kvæði reyndar að höfðinu hnígandi si svona örugglega inní vegginn. Það var sem sagt þyngra í honum en öðrum en samt voru þetta ekki þungbær þyngsli og einhvernveginn sjálfsögð í líkingu við þau ímynda ég mér sem trúaðir segja að venjist svo vel að axla að þeir mega ekki til þess hugsa að varpa þeim frá sér og svo var hann líka oftast inni hjá sér eða á einhverjum óvísum kreiki og það var náttúrlega léttara þó eftir stæðu ráðin og lífsreglurnar sem maður vék sér undan þegar færi gafst á og urðu fyrir bragðið þéttari á verðinum og viku ekki frá og þurftu ekkert að sofa. Hann varð nefnilega ekki dreginn beinlínis í efa frekar en mýrin og skurðirnir, hafgolan og haustið.

(s. 79-80)