Sólstjakar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Um bókina:

Sagan gerist að hluta til í Þýskalandi er afar óvenjulegt morð er framið í íslenska sendiráðinu í Berlín. Á skrifstofu sendiherrans situr vafasamur viðskiptajöfur með iðrin úti og flugbeittan veiðihníf á kafi í maganum. Hver átti sökótt við þennan mann? Og hvernig komst hnífurinn inn um öflugt öryggishlið norrænu sendiráðanna?

Úr Sólstjökum:

Arngrímur gekk upp eina hæð og kíkti inn dimman ganginn á efstu hæðinni. Hann þreifaði eftir fyrstu tvennum dyrunum til hægri og fann að þær voru læstar. Salernið á vinstri hönd var opið og mannlaust.

Þá var bara eftir skrifstofa sendiherrans og þar voru dyrnar opnar í hálfa gátt. Arngrímur færði sig nær og leit inn fyrir gættina. Í öðrum enda herbergisins logaði á sveru kerti sem stóð í háum kertastjaka en annars var myrkur þarna inni. Gluggatjöld voru dregin fyrir og slökkt á öllum rafmagnsljósum. Flöktandi kertaljós var eini ljósgjafinn. Arngrímur steig innfyrir og virti kertastjakann fyrir sér. Hann var úr brenndum leir, misþykkur sívalningur á traustri undirstöðu. Stjakinn stóð á lágu borði og við hlið hans var annar stjaki, mjög svipaður útlits en það logaði ekki á kertinu sem stóð upp úr honum. Stjakarnir voru sérkennilega grófir, greinilega engir kirkjugripir.

Það var eitthvað verulega athugavert við þetta allt saman og Arngrímur fann kuldahroll læðast upp eftir bakinu og hálsinum upp í hnakkann. Varlega sneri hann sér við og leit á skrifborð sendiherrans sem stóð í skugganum. Sver líkami sat á stól bak við það og drúpti höfði.
Arngrímur fann hvernig blóðið hvarf úr andlitinu og hann sundlaði. Í nokkur andartök stóð hann sem stjarfur á meðan blóðflæðið leitaði aftur í jafnvægi.

“Halló,” sagði Arngrímur vonlítill um að fá svar.

“Halló,” endurtók hann þegar gesturinn hreyfði sig ekki og þegar það hafði heldur engin áhrif þreifaði hann eftir rofanum við dyrnar og kveikti ljós í herberginu.

Það tók hann nokkra stund að átta sig á sjóninni sem blasti við honum. Maðurinn sat hokinn í stólnum með hendurnar lafandi niður með síðunum. Það var eins og hann væri að virða fyrir sér risastóran magann sem hafði verið ristur í sundur með lóðréttum skurði frá bringu og niður í nára. Skaftið á stórum hníf stóð út úr skurðinum að neðanverðu eins og dónaleg táknmynd. Það tókn Arngrím nokkra stund að átta sig á því að það var ekki aðeins blóð á gólfinu undir manninum. Stór hluti iðra hans auk magainnihaldsins hafði streymt út úr kviðarholinu og flætt niður á ljóst viðargólfið milli fótanna. Flekkurinn var ótrúlega stór en einhverra hluta vegna horfði Arngrímur ekki á hann heldur stóran vindil sem maðurinn hélt á milli fingranna. Tveggja sentimetra aska sýndi hvernig vindillinn hafði brunnið í þessari stellingu en svo hafði drepist í glóðinni.

“Gat verið að gesturinn hefði leyft sér að reykja þarna inni?” var eina heilsteypta hugsunin sem kom fram í huga Arngríms og honum fannst að velgjan sem magnaðist innra með honum væri til komin vegna óvelkomins tóbaksreyks en ekki vegna stækjunnar sem barst frá hrúgaldinu á gólfinu og opnu gímaldinu framan á maga mannsins.

(s. 16-17)