Sólskinshestur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

Einnig gefin út í kilju 2006.

Úr Sólskinshesti:

Þegar alvara lífsins tók við, með kærasta, hætti ég að tala við Dór. Samt skrifaði ég henni bréfið þegar ég var búin að segja upp kærastanum og það er enn í gamla skrifborðinu mínu.

DÓR HARALDSDÓTTIR
GRÆNA HÚSI
SIGLUFIRÐI
ÍSLANDI

Kæra Dór,

ég held að við séum jafnöldrur og ég vona að þú sért búin að eignast kærasta, sem ég á ekki lengur. Ég sagði honum upp einn góðan veðurdag á Mokka.
Ég hef áhyggjur af því hvernig ég muni komast á braut frá Sjafnargötu úr því hann er ekki lengur til að fara með mig þaðan. Nú á ég kannski eftir að finnast dauð í einhverju herberginu og gæti tekið tíma að finnast þótt ég eigi ekki að láta nokkurn mann heyra þetta.
Ég óska þér velfarnaðar og ég hef trú á hamingju þinni. Minni eigin hrinti ég frá og varla mun ég detta um hana þegar fram líða stundir.

Þín fornvina,

Þú þagðir þegar ég var búin að segja orðin á Mokka. Ég horfði ekki á þig svo ég vissi aldrei hvernig þér varð við. Þú kláraðir ekki úr kaffibollanum þínum. Ég leit upp þegar þú opnaðir dyrnar og horfði á eftir þér. Næst þegar ég sá þig var það baksvipurinn á Spítalastíg með hlykkjóttum skugga, svo nálægt að ég keyrði næstum því yfir hliðina á honum.


Þú fórst burt úr bænum. Ég gekk stundum á okkar slóðum í hásumrinu og borginni sem var tóm af því þú varst farinn og það var ekki hlýrra en svo að ég var alla daga í síðu blágráu úlpunni úr Skátabúðinni sem þú valdir handa mér af umhyggju og festu, eins og gráhærður kærasti hefði gert, og þú ert ekki bara gráhærður, heldur líka alkominn með appelsínugula steypuhrærivél sem hefur tekið sér bólfestu í garðinum þínum.

Fyrst fórstu stutt og svo langt. Þú fréttir ekki neitt um EFTIRLEIKINN, eftirleikinn með dætrum mínum í Skipasundi og Kaupmannahöfn, endalausa útmánuði í hjónabandinu, vaktirnar á deildunum, skilnaðinn, og þú fréttir ekkert um líf númer tvö á Sjafnargötu með langvarandi herbergisviðgerðum og Mumma og vinum hans og Ragnhildi. Þú þekktir mig samt á öllum tímum, vegna þess að þú gleymdir engu - en það að þekkja snýst um að gleyma engu og að frétta ekkert um manneskjuna eftir að hún verður óþekkjanleg.

(s. 77-79)