Sólhvörf

Sólhvörf
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2017
Flokkur: 

Um bókina

Sólhvörf er önnur bókin í sögu Bergrúnar og Brá.

Börn hverfa án ummerkja í myrku skammdeginu og lögreglan er ráðalaus. Þegar fjórða barnið hverfur eftir að faðir þess hefur verið myrtur finnast vísbendingar sem taka af allan vafa um að yfirnáttúruleg öfl séu hér að verki. Lögreglan fær huldumiðilinn Bergrúnu Búadóttur til liðs við sig og fljótlega slæst Brá, tvítug dóttir Bergrúnar, í hópinn.

Þær mæðgur fara ásamt sérfræðingum um vættir og fjölkynngi af ýmsu tagi yfir í Hulduheim í leit að börnunum. Þar upphefst æsispennandi atburðarás með óvæntri framvindu og hrollvekjandi átökum við stórhættulegar vættir sem hafa verið fegraðar í kvæðum og sögum í Mannheimi.

úr bókinni

Mamma er horfin í hugsanir sínar að vanda og það er augljóst að henni er mikið niðri fyrir, skiljanlega. Ég ætti kannski að fyrirgefa henni að hafa trassað jólin, hætta þessari hnýsni og leyfa henni að vinna.
   Um leið og ég ætla að setjast aftur og klæða mig í skóna kem ég auga á örsmáan dökkan hlut í plastpoka fyrir aftan fartölvuna hennar. Mig langar að láta sem ekkert sé en ræð ekki við mig. Þó er það ekki bara forvitni sem dregur mig að hlutnum heldur finn ég strauma líða um höfuðið þegar ég horfi á hann.
   „Hvað er þetta?“ Eins og í leiðslu teygi ég mig í pokann, mamma reynir að koma í veg fyrir að ég taki hann en ég er sneggri til.
   „Brá Bjarkadóttir!“ gólar hún. „Andskotans dónaskapur og hnýsni er þetta í þér. Láttu þetta vera!“ Hún sprettur upp af stólnum og grípur þéttingsfast um úlnliðinn á mér, ævareið á svipstundu orðin eldrauð í framan.
   Hún reynir að opna lófa minn en þá kreppi ég hnefann ósjálfrátt fastar, ég vil gefa eftir en get það ekki. Hugurinn og hluturinn hafa tengst sterkum böndum, þetta eru yfirnáttúruleg tengsl sem ég hef ekki stjórn á. Ég þarf nauðsynlega á meiri þjálfun að halda.
   Mamma tekur andköf og sleppir takinu. „Augun á þér, þau eru skjannahvít. Hvað sérðu?“
   Skrifstofan hverfur sjónum og við tekur djúpt myrkur sem ég stari inn í. Reyni að rýna betur inni í það, hugurinn berst fram á við, mér sýnist bjarma af bálkesti í fjarska, skuggum bregður fyrir, ég heyri grát, barnsgrát, margradda, og kvenrödd sem segir: „Þegið þið nú, skammirnar ykkar.“
   Fjarsýnin dofnar. Í sama bili og steini lostin mamma mín birtist aftur segir röddin úr myrkrinu hvellt: „Hver er þar?!“
   Ég gríp andann á lofti, sleppi pokanum á skrifborðið og missi máttinn í fótunum. Þótt mamma sé lítil og kubbsleg er hún vanalega snör í snúningum, henni tekst að grípa undir handarkrikana á mér áður en ég fell í gólfið, kemur mér varlega niður á stól og strýkur yfir kollinn á mér. Munnurinn er skraufaþurr, ég þamba afganginn af feitri G-mjólkinni.

(31-32)