Sogið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Lýst er eftir átta ára stúlku sem hverfur úr skólanum einn haustdag. Undarlegur spádómur unglings kemur upp úr hylki sem innsiglað var fyrir tíu árum, í kjölfarið taka voveiflegir atburðir að gerast í Reykjavík. Og lögreglan er ráðalaus.

Hér stíga fram á sviðið sömu aðalpersónur og í síðustu bók Yrsu Sigurðardóttur, DNA.

Úr bókinni:

Það var verið að hleypa út í frímínútur þegar þau gengu út. Lætin voru yfirþyrmandi og til lítils að ræða saman meðan þau þræddu sér leið yfir skólalóðina.

„Hvað finnst þér?“ spurði Huldar og leit yfir barnaskarann á leikvellinum þar sem þau stóðu úti á bílastæðinu. Honum varð starsýnt á þá fáu nemendur sem lónuðu einir á jaðri skólalóðarinnar og gat sér til um að svona hefði verið ástat um hinn undarlega Þröst.

„Ég veit það ekki. Ég er meira hugsi nú en þegar ég las bréfin. Ef það er rétt munað hjá manninum að Þröstur hafi einnig þurft á sálfræðiaðstoð að halda áður en þessi drungi gerði vart við sig þá er það ákveðið áhyggjuefni. Börn eru ekki í reglubundnum viðtölum hjá sálfræðingi nema eitthvað búi undir. Í einstaka tilfelli er um alvarlegan brest að ræða. Það hefur eitthvað verið að drengnum. Eða nánasta umhverfi hans.“

„Nóg til þess að hann sé líklegur til þess að láta verða af þessu? Eða einhverju ámóta?“

Freyja hrukkaði ennið og virtist vera að hugsa sig um. „Líklega ekki. En ég myndi vilja ræða við hann. Eftir að ég hef talað við Sólveigu. Hún getur örugglega varpað einhverju ljósi á þetta. En ég má ekki ræða við þig það sem okkur fer á milli, aðeins segja þér niðurstöðurnar. Mjög svo almennar niðurstöður.“ Hún brosti í fyrsta sinn til hans í svo langan tíma að hann hafði gleymt hve fallegt brosið var. „Ef þú ert heppinn. Kannski get ég ekki sagt þér neitt af því sem hún trúir mér fyrir.“

„Ókei. Ég verð að beygja mig undir það.“ Huldar horfði á hana veiða bíllyklana upp úr vasanum. Það rann upp fyrir honum að hún var ekki vön að ganga með veski, ólíkt öðrum konum. Þegar systur hans komu saman héngu veski á öllum stólbökum og tróndu uppi á öllum borðum. Algengasta setningin í slíkum veislum var: „Ekki nennir þú að rétta mér veskið mitt?“ og var orðunum þá yfirleitt beint til Huldars. Hann var yngstur í systkinahópnum og í þeirra augum yrði hann snati þeirra alla daga, allt til enda veraldar. Kannski var það einmitt það hve ólík Freyja var systrunum sem heillaði hann mest. Hann yrði fyrr einsetumaður en að binda trúss sitt við einhvers konar útgáfu af þeim. „Ég ætla að reyna að hafa uppi á Þresti. Ég er með nægar upplýsingar til að geta fundið kennitöluna og eftir það ætti leikurinn að vera auðveldur. Viltu ekki hitta hann með mér?“

Freyja opnaði bílinn með lykli, ekki fjarstýringu. Skrjóðurinn var sennilega frá því fyrir daga þeirrar tækni. „Endilega. Ég myndi ekki vilja missa af því. Alls ekki. Þú ættir í millitíðinni að skoða hvort hann sé á sakaskrá. Það gæti verið fróðlegur leikur.“ Hún útskýrði orð sín ekki frekar en settist inn og skellti á eftir sér.

(59-60)