Sofðu ást mín

Sofðu ást mín eftir Andra Snæ Magnason
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um Sofðu ást mín

Barn í Lapplander-jeppa leitar að griðastað fyrir randaflugu uppi á hálendinu, ungur maður leitar að orði sem nær yfir ástina, nýbakaður faðir fer í pílagrímaferð til Lególands og allir draumar rætast þegar fjárfestir kaupir sér risaeðlu og heldur einkapartí með Duran Duran.

Sofðu ást mín geymir sjö raunsæjar og persónulegar sögur eftir Andra Snæ Magnason. Saman mynda þær einlægan streng sem fyllir upp í óvenju fjölbreytt höfundarverk hans.

Úr Sofðu ást mín

Uppi í hlíðinni var frændi minn að velta niður grjóthnullungum. Pabbi hans kom sótbölvandi og sótti hann og öllum krökkum var skipað að fara að sofa enda komið fram yfir miðnætti þótt enn væri albjart úti. Nóttin var hljóð, enginn fuglasöngur, bara fjarlægur niður frá litlum læk sem rann skammt frá. Það var kul í lofti þótt himinninn væri heiður. Ég geymdi randafluguna á þurrum stað við höfðalagið.

Um morguninn var flugan mín ennþá lifandi en regndropar trommuðu á tjaldhimininn. Tjöldin voru tekin saman og karlarnir ræddu málin. Það var orðið ljóst að Lapplanderinn kæmíst aldrei leiðina sem hópurinn ætlaði. Árnar voru óvenju vatnsmiklar og stórar fannir sem áttu að vera horfnar um þetta leyti lágu ennþá yfir slóðanum á löngum köflum. Lappinn þótti sérlega þungur í snjó og á alltof mjóum dekkjum. Karlarnir lágu yfir landakortum og það var ákveðið að við færum til baka, aðra leið að vísu en þá sem við komum, leið sem væri óhætt að fara einbíla. Mér fannst það næstum niðurlægjandi, eins og að vera ekki valin í liðið í fótbolta, og ég vorkenndi pabba þegar maðurinn á Cherokee-jeppanum sagði: Háskólamaðurinn hlýtur að rata eftir kortinu! Mamma var afsakandi þegar hún kom inn í bíl.

- Þeir eyddu öllu í bílana á meðan við vorum úti að læra.

Við horfðum á bílalestina silast af stað og mér fannst við undarlega ein í heiminum. Við eltum þá skamman spöl þar til vegurinn skiptist við gula stiku og við sveigðum inn á slóða sem lá til norðurs. Leiðin virtist endalaus og ég sofnaði. Ég vaknaði við enn eitt rifrildið í framsætinu. Mamma sagði að slóðinn væri ekki á kortinu, pabbi sagði að hann væri það víst en skömmu síðar hvarf vegurinn inn í skafl og augljóslega engin leið að komast yfir hann. Pabbi játaði sig sigraðan, sneri við en mamma var hljóð. Ég hugsaði með mér hvað hún gæti þagað hátt, það var varla líft í bílnum þegar hún þagði svona hátt. Bróðir minn var sofandi. Mig langaði til að pota í hann en lét hann eiga sig.

Pabbi beygði út af veginum og tók stefnuna upp á næstu hæð. Þar nam hann staðar og stillti útvarpið þar til við heyrðum óm af veðurfréttum. Hlutlaus kvenmannsrödd, kuldaleg og grá eins og veðrið sjálft, þuldi upp tölur og örnefni: Stafholtsey, ládautt, skyggni ágætt, hiti 7 stig, Gjögur, norðaustan kaldi hiti 5 stig ...

- Það gæti gránað í fjöll, sagði pabbi.

- Við erum á fjöllum, sagði mamma. - Við gætum lent í snjókomu.

(14-5)