Snjór í myrkri

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um bókina:

Yfir minningunni um tónlistarkonuna Lillu grúfir dimmur skuggi. Eftir stuttan en glæsilegan feril finnst hún myrt á hrottafenginn hátt. Lítt þekktur rithöfundur fær það verkefni að skrifa ævisögu hennar. Kvöld eitt verður á vegi hans ung kona sem býr yfir óþægilegri vitneskju ...

Úr Snjó í myrkri:

Haraldur átti í orðaskaki við tvo menn en fylgdi mér umyrðalaust til baka. Og var hinn spakasti í jeppanum á heimleiðinni.

En um nóttina dró til tíðinda.

Ég veit ekki hverjir af ferðafélögunum vöktu áfram eftir að í húsið var komið. Einhverjir þó. Ég bauð hins vegar góða nótt og gekk til náða. Þá var klukkan eitt.

Það var svo undir morgun að ég vaknaði við brothljóð og spratt á fætur. Fyrst datt mér í hug snjóflóð – kannski vegna þess að ég hef heyrt að rúður spryngi þegar þau falla. En vitaskuld lenda engin snjóflóð inni í kaupstaðnum. Ég lagði við hlustir. Hagl hrundi á gluggann eins og um kvöldið. Það var eina hljóðið sem ég greindi þá stundina.

Ég dreif mig í föt og hraðaði mér niður. Á hæðinni var þögn og ljósin slökkt. Nema á vegglampa í stofunni .Og því var skrýtið a ég skyldi ekki strax sjá Harald. Á sófaborðinu og skenknum voru flöskur og glös. Karlmannsjakki lá á stólbaki. Nei, þarna var ekkert sem skýrt gat brothljóðið, og ég snerist á hæli. En smávægileg hreyfing fangaði skyndilega athygli mína svo ég leit við.

Og þá sá ég hann.

(20-1)