Skáldsaga um Jón

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Um bókina

Fullur titill bókarinnar er Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma.

Séra Jón Steingrímsson er einn merkasti klerkur Íslandssögunnar, „eldklerkurinn“ í Skaftáreldum. Í þessari einstæðu skáldsögu kynnumst við honum sem ungum manni og fylgjumst með upphafi nútímans á Íslandi gegnum örlagaríka sögu af mótun manns og lands. 

Haustið 1755 fer Jón úr Skagafirði suður í Mýrdal. Hann liggur undir grun um að hafa myrt fyrri eiginmann Þórunnar konu sinnar og hefur hrakist úr starfi við Reynistaðarklaustur. En Suðurland er ekki fýsilegt til búsetu: Katla gýs eldi og eimyrju, Mýrdalurinn er hulinn ösku og rógurinn fylgir Jóni hvert sem hann fer. Hann sest að í helli við Reynisfjöru ásamt bróður sínum og vinnumanni og undirbýr komu konu sinnar suður. Í hellinum þarf Jón að takast á við sína innri djöfla, vonleysi og ótta með því að tengja sig við ástina, Guð og endurreisn Íslands. Jarðabætur og bréfaskriftir hans til Þórunnar eru honum lífsbjörg og sálarhreinsun. En þegar fógetinn mætir á svæðið er Jón knúinn til þess að horfast í augu við fortíð sína.

úr bókinni

Eftir góðan skurk með jarðnafarinn göngum við Eggert og Bjarni í hellinn þar sem Þorsteinn hefur útbúið eina dýrindis máltíð. Það krefst mikils hugrekkis að bjóða Eggerti í mat því hann er mesti matvælafræðingur á Norðurlöndum og ákaflegur sérvitringur.

Eftir matinn sitjum við í hellingum og berum saman skrif okkar og rannsókn. Þeir Eggert og Bjarni hafa þegar tekið viðtöl við fólk á Síðunni og Tungunni. Þar sagði fólk að nokkrum fyrir eldsuppkomuna hefði það fengið hellu fyrir eyrun, fundið kaldan brennisteinsfnyk og að árnar hefðu fyrst þornað upp og svo farið að hlaupa. Hefur þetta ætíð verið merki um eldsumbrot. Þá bræðir eldurinn gat á ísinn, við það fellur vatn niður um göngin og þá verða landskjálftar.

Til þess að undirstanda náttúruna í rannsóknarferðunum hafa þeir E&B með sér ýmis mælitæki, þar á meðal barómetró eða baróskóp, undratæki sem kemst yfir áætlanir Guðs: það mælir þrýsting loftsins og sér fram í tímann hvernig veðrið verður á morgun. Thermómetró, sá skynjar hitann og frostið hvar sem hann er og tjáir sig með tölustöfum. Úr, en það talar um tímann, segir hvernig honum líður; úrið hefur fullkomið auga fyrir eyktamörkum, sé það rétt stillt, annars er varhugavert að treysta því. Sólskífu hafa þeir, hún keppir við úrið í nákvæmni, en tapar þeirri keppni, en tekur við í hvert sinn sem úrið bilar eða ef stillingar er þörf; þar sigrar fornöldin nútímann í langhlaupi. Hýdrómetró, það mælir þéttleika vatns og gæði öldkeldu og bjórs. Astrólabíó, það mælir þyngd lofts, en ég hef ekki enn sett mig inn í þau fræði; þetta má heita viðkvæmt tæki, með því hafa þeir mælt hæð fjallanna, eftir að ferð sem mér er ókunn, því ég get ekki skilið hverni  þungt loft getur tjáð sig um faðma. Anemómetró, en það er vindmælir; það er box með lúgum og lætur vindinn ýta stöng og lyfta lóðum, segir hann til um vindstyrk. Eru þeir fjelagar alltaf að skoða þessa hluti, pússa þá, ditta að þeim og dúlla sér við þá og dást að þeim. Ég myndi segja að þeir þyrftu að venja sig af þessu áður en þeir finna sér kvonfang.

Eða hvað segir þú um allt þetta, Þórunn?

Mér, sem sjálfskipuðum tímatalsfræðingi og annálsritara, ber skylda til að lýsa eldinum í nákvæmri skýrslu, sannleikanum samkvæmt, ýkjulaust, eins og ég er vitni að því og sé með eigin augum og heyri með mínum eyrum, lykta með mínu nefi, héðan úr Hellum, svo skal minn munnur, minn hugur og hönd, fara rétt með vitnisburðinn í þágu vísindanna að allri raun, sjón og veru, til að fullgera Hellaannál. Ekki er ég viss um að þetta verði eins fínt hjá mér og hjá þeim Eggerti og Bjarna. Þeir eru sem tvöfaldir VísiGíslar.

Ég get ekki beðið mikið lengur að fá að sjá þig. E&B spurðu mig hvort ég hefði orðið var við keldusvínið hérna í Hellum. Mér finnst það alltaf vera okkar fugl. Ekki hef ég sé það í Hellum en segi þeim frá keldusvíninu sem við sáum hjá okkur á Frostastöðum. Það er nú meira en lítið dularfullt þetta keldusvín. Eggert kann af því margar sögur, að það hafi undramátt og fari með töfrabrögð og hafi ormaeðli og geti borað sig ofan í jörðina eins og Rati, en segir það allt hjátrú alþýðunnar og aðeins hafa skemmtangildi, það geri kannski holur, eða hreiðri um sig í gömlum refabælum... Bjarni sá það fyrir mörgum árum og það skýrt og greinilega. Eggert er sá eini sem hefur ekki séð það og felur gremju sína illa. Nei, ég hef ekki séð keldusvínið hérna í Hellum, það gæti þó vel þrifist hér í mýrunum og öllum jarðgöngunum; það virðist dvelja neðanjarðar og fljúga lítið. Telja það allir fuglafræðingar ófleygt nema Bjarni sem hefur það fleygt í sínu Fuglatali. Hann segir fuglinn einungis sjaldgæfan og því séu um hann margar vitlausar hugmyndir. Keldusvínið heldur sig oftast við heitar laugar og fen, er eldsnöggt í hreyfingum og getur hlaupið á undraverðum hraða, sjáist það á sléttum velli er það umsvifalaust horfið. Keldusvínið er öskugrátt, segir Bjarni í ornitólógíunni.

(s. 94-97)