Skáldanótt

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Skáldanótt:

Fyrir horn birtist HJÁLPARSVEIT SKÁLDA. Þeir syngja.

HJÁLPARSVEIT
“Hjálparsveit skálda skaffar dótið
ef skáldið hverfur í öldurótið.
Rím og stuðla og rithönd góða.
Við reddum öllu sem þarf til ljóða.
Hjálparsveit skálda skaffar dótið
ef skáldið hverfur í öldurótið.”

HULDA
Á hvers vegum eruð þið
sem ætlið að leggja skáldum lið?

SKÁLDAFORINGI Við erum á vegum Reykjavíkurborgar. Hjálparsveit skálda. Við eigum að sjá um að “Skáldanóttin” fari vel fram, passa að skáldin fari sér ekki að voða, verði ekki fyrir átroðningi æstra aðdáenda og ...

HERMANN
En vitið þið þá hvar vinurinn er?
Vorboðinn ljúfi, fugl sem fer?

SKÁLDAFORINGI
Já, blessaður! Þú hefur ekki fundið hann ennþá? ...(brestir í talstöð, hann svarar) Skáldaforingi Stefán Tveir, skipti... Á horninu á Klapparstíg og Laugavegi skipti... Er þetta ekki frekar mál fyrir Ljósvíkingasveitina? skipti... Allt í lagi, segjum það, við verðum komnir eftir fimm mínútur, Skáldaforingi Stefán Tveir kveður, over and out. (Við félaga sína) Allir til reiðu snú! Neyðarútkall úr Gróttu. Þórbergur Þórðarson nakinn í fjöru, er hætt kominn, innlyksa í útskeri, farið að flæða að.

HERMANN
Látinn maður í lífshættu?
Lifir dauðinn við áhættu?

SKÁLDAFORINGI
Eitt sinn skal hver deyja. Ekki tvisvar. Útí Gróttu! Björgum Þórbergi! Tilbúnir! Til reiðu snú! Og af stað.

HJÁLPARSVEIT
“Hjálparsveit skálda skaffar dótið
ef skáldið hverfur í öldurótið.”

(Hjálparsveit fer)

(s. 77-78)