Sjöundi sonurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 


Fimmta bókin um Einar blaðamann.

Um bókina:

Einar blaðamaður á Síðdegisblaðinu fyrtist við þegar hann er sendur vestur á firði um hávetur. Ekki líður þó á löngu áður en hann fær fiðring í fréttanefið. Gamalt hús í miðbæ Ísafjarðar brennur og grunur leikur á íkveikju; þekktur fótboltakappi og félagi hans hverfa sporlaust. Fyrr en varir er Einar kominn á kaf í ískyggilega atburðarás sem er á skjön við friðsæld Vestfjarða.

Úr Sjöunda syninum:

,,Orrustuhóll stendur undir nafni, segi ég og smelli af myndum í gríð og erg. ,,Þetta er eins og eftir loftárás.

einkennisklæddur lögrelgumaður stuggar mér frá. ,,Haltu þér í hæfilegri fjarlægð. það er verið að rannsaka vettvanginn.

Húsbíllinn var hvítur og rennilegur þegar hann brunaði í gegnum bylinn í Aðalstræti í fyrradag, en nú virðist hann ónýtur. Framrúðan er horfin og aðrir gluggar líka, sýnist mér.

Ég sé Brand Brandsson standa á spjalli við óeinkennisklæddan mann sem ég reikna með að sé annar tveggja rannsóknarlögreglumanna sem Lögreglan á Vestfjörðum hefur á Ísafirði. Fleiri búningalöggur eru á vappi kringum flakið og beina sterkum handluktum að svæðinu umhverfis það. Inni í húsbílnum vottar fyrir hreyfingu og ljóskeilum. Skömmu síðar kemur Alda Sif, yfirlögregluþjónn út um brunnar dyrnar og gefur sig á tal við Brand og rannsóknarlögreglumanninn.

,,Geturðu beðið Öldu Sif að eiga við mig orð þegar hún á lausa stund? segi ég við lögguna sem stendur vörð milli mín og húsbílsins.

Hann lítur á mig og röltir áleiðis til þeirra. Andardrátturinn stendur up af honum eins og gufustrókur.

Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að hringja í Trausta Löve og segja honum tíðindin en ákveð að það sé ekki tímabært. Hann fer varla að rífa up útsíður morgundagsins vegna stolins húsbíls sem nú er brunarúst.

Skyndilega hringir sími. Ósjálfrátt seilist ég í vasann og dreg upp gemsann. Samt veit ég að þetta er ekki mín hringing. Mín er hæggeng og róandi útsetning á Unchained Melody. Þessi er hröð og fjörleg. Manst'ekk' eftir mér? með Stuðmönnum.

Ég svipast um og reyni að renna á hljóðið. Þá sé ég hvar bjarminn af gemsaskjá blikar við þúfu rétt hjá mér, nokkra metra frá hólnum.

Síminn er hálfur á kafi í snjó. Ég gríp hann upp.

,,Halló?

Þögn.

,,Halló?

,,Hver er það? segir hikandi kvenrödd. Það er eitthvað einkennilegt við hana. Hún drafar ekki beinlínis en bjagar orðin.

,,Einar heiti ég.

Sambandið rofnar.

Ég horfi á símann í lófanum. Hann er af nýrri og fullkominni gerð.

Á skjánum stendur að eigandi símans hafi misst af 41 hringingu.

Út undan mér sé ég hvar Alda Sif klöngrast til mín yfir kargaþýfið, dúðuð í þykka loðúlpu.

Ég flýti mér að tékka á númerinu sem hringt var úr.

Í patinu og kuldanum vilja puttarnir ekki hlýða.

Alda sif er komin upp að mér. Augun undir loðhettunni eru hvöss og munnsvipurinn herptur.

,,Hvað ert þú að gera hér?

(71-2)