Sitji guðs englar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 

Iðunn 1983, 1984, 1988, 1994. Vaka Helgafell 1999. Myndir: Sigrún Eldjárn.

Sitji guð englar er fyrsta bókin í þríleik. Hinar tvær eru Saman í hring (1986) og Sænginni yfir minni (1987).

Úr Sitji guðs englar (1983):

Sjómenn voru ekki heima hjá sér eins og aðrir menn. Krakkarnir sex vissu mæta vel, að pabbi þeirra var enginn venjulegur pabbi, sem kom heim úr vinnunni á kvöldin eins og hinir pabbarnir. Pabbi var sjómaður, og sjómenn áttu eiginlega heima í skipunum á sjónum.Ég er að fara um borð, sagði pabbi þegar hann fór, og þá fannst krökkunum hann vera að fara heim til sín. Hjá þeim var hann bara gestur. Og eins og alltaf þegar gestir koma, fór heimilislífið úr skorðum, þegar hann var þar. Enda hegðaði hann sér ekki eins og annað fólk, þegar hann var í landi.
Í bænum þeirra voru tvenns konar menn: sjómenn og landmenn. Krakkarnir höfðu oft heyrt ömmu segja, að mamma þeirra hefði átt að giftast landmanni. Helst einhverjum sem vann á skrifstofu. En hún var þó fegin að pabbi hafði alltaf vinnu, því að sumir landmenn höfðu enga. Og pabbi fór í eins marga túra og hann gat til þess að fá peninga fyrir mat handa þeim öllum, líka túrana, sem hann mátti vera í landi. Þetta fannst ömmu ágætt hjá pabba, en henni fannst samt að mamma hefði ekki átt að giftast sjómanni, eða þá að minnsta kosti einhverjum öðrum sjómanni en pabba, úr því að hún þurfti endilega að giftast sjómanni.

(s. 12-13)