Sígaunajörðin

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994

Skáldsagan Endless Night eftir Agöthu Christie í þýðingu Ragnars.

Bókin Sígaunajörðin segir frá ungum Breta sem kynnist ríkri bandarískri stúlku. Þau verða ástfangin og ákveða að búa á stað sem kallast Sígaunajörðin. Þetta er dularfullur staður sem sagt er að bölvun hvíli á. Allt bendir til að eitthvað sé í uppsiglingu... jafnvel morð.

Úr bókinni:

Loks kom ég að þeim stað þar se ég leit Ellí fyrst augum. Hún stóð við stórt tré og það var eins og hún væri nýkomin og hefði birst á einhvern undraverðan hátt – hefði jafnvel komið út úr trénu. Hún var í dökkgrænum ullarfötum og hárið var brúnt á litinn og hafði milt yfirbragð – líkt og haustlauf. Það var eitthvað óraunverulegt við hana. Ég nam staðar. Hún horfði á mig með munninn í lítið eitt opinn og það var eins og henni væru brugðið. Ætli svipurinn á mér hafi ekki bent til þess sama. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja, en samt langaði mig að segja eitthvað.

„Afsakaðu,“ sagði ég loks. „Það var ekki ætlun mín að láta þér bregða. Ég vissi ekki til þess að það væri neinn hérna.“

Rödd hennar var mjúk og blíð. Hún talaði næstum eins og lítil stúlka – en þó ekki alveg eins.

„Það er allt í lagi,“ sagði hún. „Ég hélt einnig að ég væri ein hérna.“ Hún leit í kringum sig og sagði: „Það er ekki mikið um mannaferðir á þessum stað.“ Það virtist fara hrollur um hana.

Vindurinn var napur á þessu síðdegi. En ef til vill var það ekki vindurinn sem olli hrollinum – ég var ekki viss og færði mig nokkur skref nær henni.

„Þetta er ansi skuggalegur staður, finnst þér ekki?“ spurði ég, „Þessar rústir til dæmis.“

„Turninn,“ sagði hún hugsi. „Hét húsið ekki því nafni? En það virðast samt ekki hafa verið neinir turnar á því.“

„Ég býst við því að nafnið hafi enga djúpa merkingu,“ sagði ég. „Fólk gefur húsunum sínum nöfn eins og Turninn til að gera þau mikilfenglegri en þau eru í raun.“

(25-6)