Síðasta orðið : safn til eftirmæla eftir hluta Ívarsen-ættbálks og tengdafólks á 20. öld : útgefið, safnað, flokkað og ritstyrt af fræðimanninum Lýtingi Jónssyni frá Veisu í Öngulda.

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Síðasta orðinu:

Dóra Jónsdóttir
eftir Öldu Oddsdóttur Ívarsen

Dóra Jónsdóttir, sem nú er nýlátin í Reykjavík í hárri elli, var fyrir mér ímynd þess besta sem fólk af gamla skólanum bjó yfir. Hún var stálheiðarleg, trygglynd og nægjusöm. Mér og mínu húsi var hún mikils virði. Hún var jafnan boðin og búin að hafa hönd í bagga með því sem fram átti að fara í Sörlaskjóli, hvort sem það voru veislur eða vorhreingerning. Landlæknisfrúnni móður minni var ósýnt um þá hlið heimilisstarfa sem að þrifnaði lýtur og var Dóra piparkona eins og við kölluðum hana ein þeirra sem gjarnan aðstoðaði. Hún sá oft hvað betur mátti fara, til dæmis þegar stórveislur voru í undirbúningi, og voru móðir mín og hún ekki alltaf á sama máli. Í huga mínum er Dóra nátengd jólum. Hún kom jafnan á aðfangadag til þess að aðstoða við jólaundirbúning sem fólst meðal annars í því að setja slöngulokka í Ölmu systur og mig, en það var mikið verk því hár okkar var sítt. Tækið var líka frumstætt, járn sem þurfti að hita á eldhúshellu. Það var mikil framför í snyrtingu þegar rafmagnskrullujárnin komu til skjalanna. Dóru þótti gaman að dóa aðra til, þótt hún væri sjálf alveg laus við pjatt og glys.
Dóra var saumakona allt sitt líf og vann mest við að sauma herrajakka. Var vandvirkni hennar við brugðið og smekkvísi. Þeir eru ófáir kjólarnir sem hún saumaði handa okkur Ölmu, blúndukjólar og pífukjólar. Sérstaklega er mér minnisstæður fjólublár evergleiskjóll sem hún saumaði fyrir fjögurra ára afmælið mitt. Hann var með pífum í bak og fyrir og mér finnst ég hafi aldrei verið jafnfín á ævinni og í þessum kjól, enda varðveiti ég hann í kistlinum þar sem ég geymi dýrmætustu minjarnar mínar.
Fórnfýsi Dóru náði ekki bara til fjölskyldu minnar í Skjólunum. Einn er sá maður sem ég hygg að hún hafi létt lífið meira en öðrum og það er Friðþjófur föðurbróðir minn sem hefur búið einn, eftir að Elsabet móðir hans féll frá. Dóra átti það til að koma og þrífa hjá honum á Fjölnisvegi og er ég ekki viss um að hann hafi ávallt þakkað henni sem skyldi. Eftir að móður Friðþjófs naut ekki lengur við má segja að Dóra hafi gengið honum í móður stað, þótt hann hafi þá sjálfur verið orðinn roskinn og hún beinlínis öldruð. Merkilegt nokk voru þau einhvers konar sálufélagar. Þau náðu ekki síst saman í ljóðunum og hún hlustaði stundum á hann flytja ljóð heilu kvöldin. Það er yndislegt þegar einstæðingar í tilverunni finna sér félaga þótt svo það sé á afmörkuðu sviði.
Ég er ein af þeim sem á Dóru mikið gott upp að inna. Dóra var betri en enginn til að halla sér að þegar eitthvað bjátaði á og barnssálin var hnuggin. Þá tók enginn eftir neinu nema Dóra. Það eru einmitt Dórur þessa heims sem gera veröldina byggilega börnum sem líða fyrir skilningsleysi fullorðna fólksins. Hafi hún þökk, en mesta af öllu fyrir þann sjaldgæfa eiginleika að skilja hvað barni leið og veita því ómælda ástúð meðan hún staldraði við.

ALDA ÍVARSEN YNGRI


Athugasemd frá útgefanda:


Ekki er ég alls kostar viss um að Alda Ívarsen yngri fari rétt með þá staðreynd að Friðþjófur hafi verið að flytja Halldóru þessari ljóð heilu kvöldin. Mér er að vísu fullkunnugt um að hann var ljóðelskur. Hins vegar var það allt of sjaldan sem hann fékkst til þess að fara með tilvitnanir sinni digru bassaröddu, og því þykir mér sennilegt að þessi svokölluðu ljóðakvöld hafi verið óskhyggja Halldóru, án þess þó ég vilji um það fullyrða.

(s. 75-77)