Sex grunaðir

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009

Um bókina:

Indverskur ráðherrasonur er myrtur í eigin veislu. Slyngur blaðamaður vill finna morðingjann meðal hinna sex grunuðu sem allir gætu haft ríka ástæðu til að vilja manninn feigan.

Úr sex grunaðir:

Grátkveinið barst frá timburkofa í miðju rjóðrinu, langdregið vein, undirstrikað af tveimur styttri, eins og jarðarfararsálmur. Það steig upp í hæstu hæðir, dvínaði þar niður í ekki neitt og hækkaði svo á ný, eins og endurspeglun sjávaraldanna sem brotnuðu á bakkanum skammt frá.
Það var októberbyrjun. Ákafa Kwalakangne, suðvestan-monsúnvindsins, hafði lægt og það var aftur farið að vera heitt á daginn. Að fara út í brennandi hádegissólina krafðist skapstyrks og staðfestu.
Melame og Pemba stóðu fyrir framan kofann og horfðu hvor á annan. “Þetta er þriðja dauðsfallið á tímabilinu,” sagði eldri maðurinn titrandi röddu. “Það fjölgar í röðum eeka.”
Pemba kinkaði kolli, hörkulegur á svip. “Þegar illu öndunum fjölgar hlýtur allt að fara á verri veg. Með sama áframhaldi verður ættbálkurinn okkar brátt útdauður, eins og dugong.”
“Ó, dugongin! Ég er næstum búinn að gleyma hvernig hún bragðaðist,” svaraði Melame löngunarfullur og kjamsaði með skrælnuðum vörunum.
“En Pemba man það ennþá. Í vígsluathöfninni minni skutlaði ég reyndar dugong,” sagði Pemba.
“Þú varst frækinn veiðimaður. Einn sá besti,” svaraði Melame í viðurkenningartón. “En sjáðu unglingana í dag, sem halda tanagiru hátíðlega með því að drekka bjór og kók. Enn einn óþverrinn, upprunninn hjá útlendingum!”
“Satt er það, höfðingi. En hvað get ég sagt? Hann Eketi minn er engu betri. Hann gerir ekki annað en að slæpast í kringum Hjálparstofnunarbúðina allan daginn og bíða eftir næstu úthlutun. Sagt er að hann selji hjálparstarfsmönnunum hunang og ambur í skiptum fyrir sígarettur. Ég hef staðið hann nokkrum sinnum að því að reykja. Maður verður niðurlútur af blygðun,” svaraði Pemba lágmæltur.
“Ég hygg að tími sé kominn til að leita leiðsagnar töframannsins,” svaraði Melame. “Í dag erum við allir önnum kafnir við að sinna útför Talais. En við skulum kalla allt ráðið saman til fundar í fyrramálið. Boðaðu til fundarins svo að lítið beri á. Við munum hittast í skóginum, í kofa Nokais, þar sem forvitin augu hjálparstarfsfólksins geta ekki séð okkur. Fulltrúinn þarna – hvað heitir hann, Ashok – er einkar hnýsinn.”
“Alveg rétt, höfðingi. Hann hefur óeðlilega mikinn áhuga á ættbálkinum okkar. Börnin eru farin að uppnefna hann Gwalen – gluggagægi,” sagði Pemba og hló.
“Ég álít hann hættulegri en snák. Sjáðu til þess að hann fái ekki veður af áætlun okkar.”
“Já, höfðingi.” Pemba hneigði höfuðið.

(s. 50-51)