Sér grefur gröf

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Af bókarkápu:
 

Óhugnanlegt morð á nýju heilsuhóteli á Snæfellsnesi. Reimleikar í svartaþoku og hörmulegir atburðir grafnir úr fortíðinni. Og Þóra Guðmundsdóttir lögmaður, sem lesendur þekkja úr Þriðja tákninu, glímir við þá spurningu hvort og þá hvernig þetta tengist morði á ungri konu sumarið 2006.
 
Úr Sér grefur gröf:
 

Þóra ræskti sig. „Það er eitt sem ég skil ekki alveg í þessu öllu saman.“ Hún leit á Jónas sem sat fölur við hliðina á henni áður en hún hélt áfram. „Hvers vegna viljið þið ræða við umbjóðanda minn? Hann á ekki hesthúsið og ég get ekki ímyndað mér að nokkuð hafi komið fram í þessari frumrannsókn ykkar sem gefur til kynna að hann hafi átt þátt í því sem þarna virðist hafa gerst.“ Hún horfði stíft í augu Þórólfs. „Eða hvað?“
Nú var komið að Þórólfi að ræskja sig og hann gerði það með stæl. „Ég hefði nú talið það augljóst. Síðast þegar lík fannst hér í nágrenninu kom í ljós að það var kona sem starfaði fyrir umbjóðanda þinn. Í ljósi þess að síðan eru einungis örfáir dagar liggur beinast við að kanna hvort einhvers sé saknað héðan. Við höfum ástæðu til að ætla að sami aðili hafi verið að verki.“
Jónas hallaði sér fram í stólnum. „Viljið þið vinsamlegast nefna mig með nafni. Ég er ekki alveg að fíla það að vera kallaður umbjóðandi.“
Þóra stundi innra með sér en leit á Jónas og kinkaði kolli. Hún sneri sér svo aftur að Þórólfi. „Sem sé, þið eruð hér einungis til að spyrja Jónas að því hvort hinn látni geti verið gestur eða starfsmaður á hótelinu? Ekki vegna þess að þið teljið hann tengjast málinu að öðru leyti.“
Þórólfur spennti greipar. „Það sagði ég nú ekki enda rannsókn á frumstigi eins og fram hefur komið. Hinsvegar er ljóst að á þessum tímapunkti erum við einungis að reyna að komast að því hver hinn látni er. Hvað tekur við að því loknu er svo algerlega óráðið.“ (190)