Sendiferðin og fleiri sögur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004

Smásagnasafnið Elephant eftir Raymond Carver í þýðingu Óskars Árna.

Úr Sendiferðinni og fleiri sögum:

Sá sem var í þessu rúmi (brot)

Síminn hringir um miðja nótt, klukkan er þrjú og okkur bregður illilega við.

,,Svaraðu, svaraðu! hrópar konan mín. ,,Guð minn góður, hver getur þetta verið? Svaraðu, maður!

Ég finn ekki ljósrofann en fer inn í hitt herbergið þar sem síminn er og tek tólið upp eftir fjórðu hringinguna.

,,Er Bud þarna? spyr kona, greinilega mjög drukkin.

,,Nei, andskotinn, þú hefur hringt í skakkt númer, svara ég og legg á.

Ég kveiki ljósið og fer inn á baðherbergið og þá heyri ég að síminn er aftur byrjaður að hringja.

,,Svaraðu! æpir konan mín innan úr svefnherberginu. ,,Hvað í ósköpunum vilja þau, Jack? Ég þoli þetta ekki lengur.

Ég snara mér út úr baðherberginu og tek upp tólið.

,,Bud? segir konan. ,,Hvað ertu að gera, Bud?

Ég svara: ,,Heyrðu, þú hefur hringt í vitlaust númer. Hringdu aldrei í þetta númer aftur.

,,Ég verð að tala við Bud, segir hún.

Ég legg á, bíð þangað til síminn hringir aftur og þá tek ég upp tólið og legg það á borðið við hliðina á símanum. En ég heyri rödd konunnar: ,,Gerðu það, Bud, talaðu við mig. Ég læt tólið liggja á hliðinni á borðinu, slekk ljósið og loka herbergisdyrunum.

Það er kveikt á lampanum inni í svefnherberginu. Íris, konan mín, situr upprétt með bakið upp við rúmgaflinn og hefur dregið fæturna undir sig. Hún er með púða við bakið, hún hefur fært sig að mestu yfir á minn helming. Hún hefur dregið rúmfötin yfir axlirnar. Bæði lakið og teppið hafa því gengið úr skorðum. Ef við ætlum að fara að sofa aftur - ég vil að minnsta kosti fara aftur að sofa - verðum við að búa aftur um rúmið.

,,Hvað í fjandanum var nú þetta? spyr Íris. ,,Við hefðum átt að taka símann úr sambandi. Við hljótum að hafa gleymt því. Sjáðu bara hvað gerist ef maður sleppir því eina nótt að taka símann úr sambandi. Þetta er ótrúlegt.

Eftir að við Íris fórum að búa saman byrjaði fyrrverandi eiginkona mín eða einhver af krökkunum að hringja þegar við vorum sofnuð, til þess að úthúða okkur. Þau héldu því áfram jafnvel eftir að við Íris giftum okkur. Við gerðum það því að reglu að taka símann úr sambandi áður en við fórum að sofa. Við kipptum símanum úr sambandi á hverju kvöldi, eða næstum því. Þetta var orðið að vana. Ég hefði bara gleymt því í þetta skiptið, það var allt og sumt.

(26-7)