Sekur flýr þó enginn elti

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Sekur flýr þó enginn elti:

 Þau drukku koníakið þegjandi og Stella fann yndislega værð koma yfir sig. Hún fann vel fyrir heitum líkama Viðars við sinn. Slopparnir höfðu runnið til og fætur þeirra lágu nú saman, naktir.
 - Ég verð að fara inn í rúm. Við verðum að hvílast.
 - Við erum að hvílast.
 - Fóturinn á þér. Við verðum að gera eitthvað fyrir hann.
 - Mér líður vel núna. Hafðu engar áhyggjur. Þú ert alltof góð stúlka. Þú hugsar um annað fólk fyrst, þó þér sjálfri líði ekki vel. Meira að segja mig sem þú þekkir lítið. Hann fór að strjúka henni létt um öxlina sem hann hélt um og Stella fann fyrir einhverjum óviðráðanlegum fiðringi sem fór um hana alla. Þetta var samt gott og hana langaði til að hann héldi áfram. En þetta var bilun. Hún reyndi að líta hlutlausum augum á þetta. Þetta gat ekki gengið lengur. Hún, ung og þekkt fyrir allt annað en daður eða ólifnað og hann, mikið eldri, harðgiftur, ókunnur maður. Nei, svona lagað var ekki hægt. Hann kyssti hana á hálsinn og henni fannst hún svífa. Ósjálfrátt hreyfði hún sig og stundi værðarlega.
 - Þetta er ekki hægt.
 Hún ýtti honum blíðlega frá sér og horfði þá í þessi djúpu augu sem gerðu hana að gjalti.
 - Það er allt hægt.
 Hann hélt áfram að kyssa hana. Heimurinn stóð kyrr. Hún vildi síst af öllu að þessu lyki og áður en hún vissi af var hún farin að endurgjalda atlot hans af ekki minni ákafa en hann. Hún fann að hana hungraði í þennan mann. Hver sem hann var og hversu rangt sem þetta var. Öll heilbrigð skynsemi hvarf á braut. Engar hömlur voru lengur til. Ástríður sem hún hafði ekki vitað að hún ætti til brutust fram og blinduðu hana. Gerðu hana stjórnlausa. Atlot hans gerðu hana að einhverju frumstæðu villidýri sem hún vissi ekki að væri til í henni. Engin heilbrigð hugsun, aðeins nautnin. Stormurinn æddi fyrir utan, regnið lamdi litla kofann. En þau vissu ekki af því. Þetta var undarleg, viðburðarík nótt. Máninn braust fram úr skýjum og glotti er hann horfði innum gluggann á kofanum og sá þessar tvær ólíku manneskjur sameinast og verða að elskendum.
 Stella komst til sjálfrar sín. Það var eins og þetta ætlaði aldrei að taka enda. Hún sem aldrei hafði upplifað fullnægingu fyrr. Þvílík unun. Það var eins og eitthvað hefði brostið í líkama hennar. Eins og hann væri loks lifandi og tæki frá henni alla skynsamlega hugsun. Það eina sem komst að var maðurinn. Þessi ókunni maður sem á svo undursamlegan hátt hafði lyft henni til skýjanna. Þau lágu í faðmlögum. Samanfléttuð eins og þau væru hrædd um að einhver reyndi að slíta þau í sundur.

(s. 59-60)