Sandgreifarnir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989

Af bókarkápu:

Þeir kölluðu sig ,,sandgreifana peyjarnir í Vestmannaeyjum þegar Björn Th. Björnsson var að alast þar upp á millistríðsárunum, og nú hefur hann skrifað þessa heillandi og bráðskemmtilegu bók um þá tíma. Hann lýsir samfélagi strákanna og margvíslegum uppátækjum þeirra, en ekki síður ágengni ,,hins stóra heims, kreppu, stríðsógn, stjórnmálaerjum og miklum umbrotum. Persónur spretta ljóslifandi fram og ekki verða síst ógleymanlegar næmar lýsingar höfundar á fjölskyldu sinni.

Úr Sandgreifunum:

Freiheit für Thälmann

Styrjöld hugsjónanna var á þessum árum ekki háð með spekingshöfði og gullnum orðum sem af því geisluðu, eins og á torginu í Aþenu forðum, heldur með berum lummunum í fiski og grút. Þar sem við strákarnir í Álftinni vorum flestir ungherjar Alþjóðasamhjálpar Verkalýðsins, ASV, sem útgerðarmenn kölluðu Allsherjar Slagsmál Verkalýðsins, þá vissum við mæta vel hvað á spýtunni hékk: ekkert minna en 1/12 partur jarðar. Og þegar fylkingunum laust saman í verkföllunum, niðrí á bryggju, uppi á Skólavegi eða á Vestmannabrautinni á móts við Einar á hjörunum, og menn voru dregnir út úr þvögunni með fossandi blóðnasir eða búnir að kyngja nýju tönnunum frá Leifi, þá vissum við ævinlega að hér var ekki slegizt um tólfaurana í næturvinnunni, heldur um hina nýju og fögru veröld þeirra Ísleifs, Rabbans og Vladimirs Iljits. Þetta er ekkert fleipur eftirhyggjunnar, enda hét blað Ísleifs á Bolsastöðum Nýr dagur, en blað Óskars fasista hét Fasistinn. Það seldi Álftin aldrei.

Það voru heldur ekki bara prentletur og glóðaraugu sem báru út meiningar manna, heldur fjöllin með. Morgun einn í miðri kosningasennu, þegar Óskar síldaróngur kom til bæjarins í framboð, þá vaknar lýðurinn upp við það, að gífurlegur hakakross úr salti er kominn yfir skriðuna undir Litlaklifi. Friðsælli tímar hefðu kallað þetta áróður á kjörstað, en menn höfðu ekki fyrir slíku þá, heldur girtu sig nokkrir í brók of afmáðu þennan öfuga hamar Þórs áður en hjartveilar konur og ungbörn komust á fætur.

(79-80)