Sá svarti senuþjófur - Haraldur Björnsson í eigin hlutverki

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1963

Ævisaga Haraldar Björnssonar, leikara.

Úr bókinni:

Það var gott að koma til Kaupmannahafnar aftur. Ég var gagntekinn þeirri öryggistilfinningu sem fylgir endanlegri ákvörðun. Ekkert er eins erfitt og valið. Ég hafði verið lengi að velja. Mörgm hefði fundizt það fullseint að finna lífsleið sína á fertugsaldri. Mér fannst það ekki. Mér fannst ég vera kornungur. Og það er ég raunar enn því ég hef aldrei játazt undir harðstjórn tímans. Tíminn er mælikvarði sem maðurinn hefur fundið upp til þess að geta mælt sína eigin hrörnun. Það hef ég aldrei gert og þess vegna er ég enn ungur maður þótt ég sé kominn á áttræðisaldur. Og í Kaupmannahöfn var ég svo ungur að ég gleymdi árunum vegna daganna.

Nú var ég kominn til Kaupmannahafnar til náms í annað sinn. Enn hafði ég lagt af stað upp í ferð sem átti að endast alla ævina. Í fyrra sinnið hugsaði ég ekki um það en nú var ég viss um að þessa leið yfirgæfi ég aldrei. Þetta var mín leið. Hugur minn var þess vegna í fullkomnu jafnvægi þegar ég hófst handa við að leita að íbúð handa okkur í blíðskaparveðri í nýju hverfi við götu sem hét Vibækkevejen. Svo fórum við út og keyptum okkur húsgögn með afborgunarskilmálum. Höfðum við aðeins haft einn hlut með okkur úr innbúinu á Akureyri. Það var borðstofuborð úr eik sem okkur þótti meðfærilegt og vildum þess vegna eki láta. Þá kom sér það vel að ég var oddfellow. Ég fór til gamals stórríks manns sem Knud Zimsen borgarstjóri hafði bent mér á að leita til. Hann gerði sér lítið fyrir þessi auðugi maður og ók með mér í strætisvagni lengst út á Amager þar sem hann átti stóra verksmiðju og þar fékk ég ágætt rúm fyrir sáralítið verð. Þetta þótti mér vel gert við bláókunnugan mann ofan af Íslandi og er það í fyrsta sinn sem ég varð var við verulegt bróðurþel hjá oddfellowum. Og hann gerði meira en þetta því hann hringdi til bróðursonar síns sem sá um íbúðamiðlun fyrir borgina og bað hann að útvega mér íbúð á betri stað af því íbúðin sem ég hafði var í úthverfi og þess vegna löng leið fyrir mig að fara í leikhúsið. Því miður var eingin íbúð laus þá en hann hjálpaði mér vel síðar.

Við höfðum ekki not fyrir öll þrjú herbergin í íbúð okkar við Vibækkevej og þess vegna leigðum við út eitt herbergið til þes að auðvelda okkur húsaleiguna. Leigjendur okkar voru gömul erfiðishjón sem vóru komin á bæinn og þaðan fengum við greidda húsaleiguna. Þetta vóru m estu meinleysishjón en ekki sérlega þrifin því þau höfðu með sér flær sem angruðu okkur mjög. Við gátum þó ráðið niðurlögum þessara miður skemmtilegu skorkvikinda og litlu síðar dóu hjónin án þess ég sé á nokkurn hátt að gefa í skyn að útrýming flónna hafi verið dánarorsökin.

(71-2)