Páll Vilhjálmsson

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1977
Flokkur: 

Myndir: Gunnar Baldursson.

Úr Páli Vilhjálmssyni:

Palli gekk léttfættur upp stigann.
Á annarri hæð var Steingrímur að fara inn til sín. Hann var í sjö ára bekk í sama skóla og Palli. Hann stóð þarna með strigaskóna í hendinni og hugsaði. Hann stóð oft þannig og horfði út í loftið. Þá var hann að hugsa.
Hæ, sagði Palli.
Já, sagði Steingrímur annars hugar.
Í sama bili og Steingrímur opnaði dyrnar, kom mamma hans í gættina.
Farðu í hvelli út í bakarí og kauptu eitt heilhveitibrauð og þrjá snúða, sagði hún höstug.
Steingrímur horfði á hana.
Heyrirðu ekki? sagði hún reiðilega. Fljótur.
Þá þarf ég aftur að reima, sagði Steingrímur vesaldarlega.
Eldfljótur, sagði konan og ýtti við Steingrími.
Mundu að bakarinn vill hafa eitthvað fyrir sinn snúð, sagði Palli.
Steingrímur hresstist. Hann settist við að reima.
Palli horfði á konuna. Mér finnst þú ekki kurteis kona, sagði hann.
Hva? Konan tók andköf. Hvað segirðu?
Palli lagaði gleraugun.
Mér finnst þú hvorki kurteis, stillt né prúð. Hvað mundir þú segja, ef Steingrímur kæmi heim og segði: Komdu með matinn. Í grænum hvelli. Vertu eldsnögg. Hvað heldurðu að þú mundir segja? spurði Palli.
Konan starði á Palla og Steingrímur var hættur að reima.
Palli andaði djúpt. Þú mundir sko segja, að Steini væri þrumudóni.
Það er alltaf sami munnurinn á þér, sagði konan öskureið.
Já, já, sagði Palli. Ég fæ hvergi nýjan.
Konan skellti hurðinni.

(s. 47-48)