Öxin og jörðin

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 


Önnur útgáfa (kiljuútgáfa), JPV-útgáfa, Reykjavík, 2004.

Af bókarkápu:

Öxin og jörðin geyma þá best. Þessi fleygu orð réðu í senn örlögum Hólafeðga og íslensku þjóðarinnar á sextándu öld. Einn kaldan nóvembermorgun var Jón Arason biskup hálshöggvinn ásamt sonum sínum tveimur, Birni og Ara. Með þessu grimmdarlega ofbeldisverki hvarf öll mótspyrna gegn hinum nýja lúterska sið og danska konungsvaldinu á Íslandi. Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson er söguleg skáldsaga þar sem fjallað er um þetta tímabil Íslandssögunnar. 

Úr Öxinni og jörðinni:

Allt í einu fór kliður um mannfjöldann. Christian Schriver tók son sinn í fangið. Böðullinn var genginn upp á pallinn. Hann var í svörtum buxum og hvítri skyrtu með svarta hettu á höfði. Hann hélt á stórri og gljáandi exi. Hinum dauðadæmda var ekið í vagni til aftökustaðarins. Fólkið varð að færa sig og þrengslin urðu enn meiri. Sakamaðurinn var ungur og mjósleginn með sítt ljóst hár. Tveir hermenn með stálhjálma leiddu hann niðurlútan og kjökrandi að höggstokknum.
 Embættismaður sté fram og las ákæruna og dóminn hátt og snjallt en rödd hans barst ekki til feðganna því að mannþröngin kumraði stöðugt.
 Drengurinn hélt um háls föður síns og þeim fannst þeir hafa horft í óratíma áður en öxin féll. Aðstoðarmaður böðulsins lyfti höfðinu upp á hárinu og gekk með það hringinn í kringum pallinn. Blóð draup úr strjúpanum. Fólk fagnaði með lófataki og einstaka hópur í kösinni hrópaði ferfalt húrra. Ungur rauðhærður maður lét félaga sinn bera sig á háhesti og stjórnaði fagnaðarlátunum í kringum sig.
 Útlimir voru höggnir af líkinu og hendur og fætur sýndir fólkinu. Búkurinn var látinn á hjól og beinin brotin með lurkum. Tálgaður oddur á langri tréstöng var rekinn upp í höfuðið og stöngin reist. Mannfjöldinn var eins og að loknum ástarleik en þó var eins og sumir hefðu ekki náð hátindi hans enn. Konan með lið á nefinu sem stóð enn fast við hlið Christians sagði að honum væri velkomið að fylgja sér og vinkonu sinni á vertshús.
 - Ég er giftur maður, sagði Christian Schriver með þjósti, - og þetta er sonur minn sem er hér með mér!
 Það var byrjað að greiðast úr mannfjöldanum.
 Þegar greiðfært var orðið á götunum sleppti faðirinn takinu á hendi sonar síns. - Mundu, sagði hann, - að þessi dómur var réttlátur. Maður á alltaf að vera trúr sínum yfirboðara.

(s. 41)