Ósýnilegar sögur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 


Úr Ósýnilegum Sögum:

Vargaklukkan

Sárið var nær gróið þegar hún uppgötvaði klukkuna sem þeir höfðu grætt í heilabú hennar. Klukkan var í fyrstu sem fjarlægur seiðingur og fuglslegt bergmál, en brátt rakti hún sársaukann og hvellan bjölluhljóminn til sömu orsaka. Hún nefndi hana vargaklukkuna vegna þess að tónninn smaug um skúmaskot heilans og kallaði fram sóðaskap hans og endurminningar sem best voru gleymdar. Í hvert skipti sem hún sneri höfði eða kinkaði kolli hringdi vargaklukkan hlakkandi, og henni leið sem veiðiketti án vonar um bráð. Og hvort sem rafboð hrundu hugsun hennar af stað eða hugsun hennar rafboðum, olli það henni ósegjanlegum kvölum er þau runnu gegnum barma vargaklukkunnar.
 Á líkan hátt og lærdómur rottunnar kallar fram hlýðni, gaf konan tjáskipti og hreyfingu upp á bátinn, en einsetti sér að breyta með viljastyrk klukkunni og koparvölsanum, er dinglaði undir hatti hennar, í tening. Hún skyldi slípa hljóðlausan tening úr ávalri klukkunni; sex hliðar, settar doppum eins og hlébarði sem síðar myndu gera henni kleift að hugsa um leið og teningurinn snerist. Mishátt tölugildi doppanna myndi stjórna athöfnum hennar í framtíðinni. Hver tala skyldi tákna eina tiltekna athöfn og þannig kæmi hún þeirri reglu á líf sitt sem þeir höfðu sagt fyrir uppskurðinn að hún myndi aldrei öðlast. Þótt hún skildi að langan tíma tæki að þvinga vilja sinn í farveg er umskapað gæti leynda klukku í tening, efaðist hún ekki eitt andartak um árangurinn, því hún trúði á fulltingi hinnar æðstu veru. Hún settist niður, holdug, einbeitt kona og lokaði augunum hugsi.
 Vottfest er að vilji konunnar gerði sögu hennar að engu, en engum ber saman um hvort henni barst til þess hjálp.
 Það er við þetta lítilræði að bæta að erfingi hennar, ónefndur hér, fékk meðal annarra gripa tening úr einkennilegu, gegnsæu efni sem olli honum heilabrotum, einkum vegna þess að teningurinn var þeirri náttúru gæddur að gefa frá sér hvellt hljóð væri honum kastað, eins og í honum væri kúla eða kólfur. Þetta hvimleiða hringl gerði hann ónothæfan til spila, en ómálga börnum þótti gaman að hrista sexstrenda öskjuna, enda felst frumvitund þeirra um vald í hæfileikanum til að mynda óþarfa hávaða. Þannig hélst vargaklukkan, að vísu óþekkjanleg sem slík, í eigu fjölskyldunnar.

(s. 77-78)