Ofsótt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Ofsótt:

 Hræðilegur sársauki og kuldi umlukti Lindu. Hún hafði ekki hugmynd um hvar hún var niðurkomin. Skerandi sársaukinn í höfðinu var óbærilegur og hana langaði mest til að loka augunum fyrir fullt og allt. Hún reyndi að muna, reyndi að skilja en það var svo erfitt. Hvað hafði gerst, hví var henni svo óskaplega illt?
 Hún hreyfði sig varlega. Annar fóturinn var undinn undir henni en hún fann ekkert fyrir honum. Dofinn í fótunum var slíkur að hún var ekki viss um að þeir væru á sínum stað. En það var verst með höfuðið. Hún hreyfði það en varð að leggja andlitið strax aftur niður í snjóinn.
 Snjór. Af hverju snjór? Það blossaði í höfðinu á henni en það var hræðilega sárt. Var hún að deyja eða var hún kannski dauð? Nei, það gat ekki verið svona hræðilega sárt.
 Stúlkan reyndi að slaka á en það ver erfitt. Smám saman komst hún til meiri meðvitundar en hvar hún var vissi hún ekki.
 Hún hafði farið út að gá að kisa. Nú mundi hún það. Hann hafði ráðist á hana, vafið utan um hana striga svo að hún var næstum köfnuð. Hann hafði hent henni á öxl sér og þar hafði hún dinglað bjargarlaus. Eftir þetta mundi hún lítið. Hún féll langt, svo kom sársaukinn og meira vissi hún ekki. En hún var að minnsta kosti lifandi.
 Það var hræðilega kalt og hríðarkófið var kæfandi. Ef hún lyfti andlitinu kom þetta kóf upp í nasirnar. Hún hataði hríð og hafði alltaf gert það. Gat verið að hún ætti að enda ævina þarna liggjandi í blindhríð og finnast svo króknuð næsta dag eða næsta vor? Nei, hún yrði að minnsta kosti að reyna. Með miklum átökum tókst henni að skríða um það bil þrjá metra. Þar varð fyrir henni steinveggur sem hún hallaði sér að. Þarna var og dálítið skjól fyrir vindinum. Dösuð seig hún að veggnum eins og dauð drusla. Hverju var hún bættari með þetta? Var hún kannski bara að lengja þjáningar sínar enn meira? Það hefði ef til vill verið þægilegra að vakna ekki aftur.
 Sársaukinn vakti hana á ný og tár seytluðu niður kinnarnar. Hún vildi ekki deyja. Hana langaði til að lifa, búa í Stóru-Brekku, sinna dýrunum sínum og vera í friði. Ef til vill átti hún það ekki skilið en hún vildi það samt. Hún vildi sjá Pálma á ný. Vildi að hann kæmi, bæri hana heim og segði að allt yrði gott á ný. Vildi að hann skyldi hana, fyrirgæfi henni, elskaði hana. Linda grét, það yrði aldrei. Þetta var vonlaust.

(s. 114-115)