Öðruvísi fjölskylda

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Öðruvísi fjölskylda er önnur bókin í þríleik. Hinar tvær eru Öðruvísi dagar (2003) og Öðruvísi saga (2006).

Úr Öðruvísi fjölskyldu:

Tja, ég vaknaði við eitthvert brothljóð, já, beinlínis brothljóð, og fór fram. En hér var allt með kyrrum kjörum.
Við vorum í fyrsta skipti í sunnudagsmat hjá ömmu í nýju íbúðinni og ég var að fara með diskana fram í eldhús og Jöri var að setja ís í skálar. Pabbi hafði flutt sig í gamlan hægindastól og dottaði þar. Marteinn og Matthildur voru heima. Þau nenntu ekki með. Við Jöri litum hvort á annað og fórum að hlusta.
Og hvað svo? spurði mamma óþolinmóð.
Ja, ég gekk út fyrir og í kringum húsið og sá lengi vel ekkert sérstakt. Þangað til ég kom að þvottahúsglugganum. Ég hafði haft vit á að taka með mér vasaljós, annars hefði ég ekki botnað neitt í neinu. Botnað, já, það má segja það, sagði hún og hló lágt.
Og þá hvað? spurði mamma skelkuð.
Bíddu hæg, sagði amma. Það sem ég sá var botninn á manni sem hékk fastur í glugganum. Afturendinn á honum stóð út úr glugganum og þarna spriklaði hann eins og silungur á öngli. Ekki var þetta nú fögur sjón. Ég held að ég hafi aldrei á lífsfæddri ævi minni séð skítugri rass á nokkrum buxum.
Við störðum öll á ömmu og pabbi, sem hafði dottað í stólnum, var staðinn upp.
Og hvað gerðirðu? hrópaði hann upp yfir sig.
Nú, hvað heldurðu að ég hafi gert? sagði amma. Auðvitað fór ég inn í þvottahús til að aðgæta hvort eitthvað væri á hinum endanum á þessum subbulega rassi.
Við Jöri fengum algert hláturskast, en mömmu og pabba stökk ekki bros.
Guð minn góður, sagði mamma. Og það hefur væntanlega eitthvað hangið við þennan óhrjálega afturenda?
Ja, öllu má nú nafn gefa, sagði amma. Þetta var náttúrulega mannvesalingur. Alveg skelfingin uppmáluð. Ég spurði hann á hvaða ferðalagi hann væri en hann stundi bara og sagði: Geturðu losað mig?
Og þér datt ekki í hug að hringja í mig? sagði pabbi öskureiður.
Ætli þér veiti af að sofa, sagði amma. Hangir varla uppi. Nei, ég byrjaði að toga í mannkertið en það var sama hvernig ég togaði. Hann haggaðist ekki.
(s. 13-15)