Norðurljós

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Norðurljósum:

Vaknaði í ofboði við það að stigið var á mig. Opnaði augun og sá mann standa hjá mér og með annan fótinn ofan á brjóstkassanum; í hendi bar hann vígalegan broddstaf. Ég var lamaður af ótta og um stund horfðumst við í augu; mér varð örlítið hughægra að sjá að hann hafði ekki grimmdarlegt andlit eða blóðþyrst augu; það var frekar einsog hann væri sjálfur hálfhræddur. Svo ræskti hann sig, einsog hann vissi ekki hvað hann ætti að segja, og loks spurði hann fljótmæltur:
 - Þekki ég þig?
 - Ég er Svartur, bróðir Ljóts Péturssonar, sagði ég.
 Maðurinn lét vopnið síga en var samt eitthvað efins og tvílráður á svip. Þetta var greinilega Eyvindur; ég þekkti hann af lýsingunni, grannur, hávaxinn, ljóshærður, bólugrafinn; hann hélt áfram að horfa á mig einsog hann væri að reyna að átta sig á hver ég væri; svo lyfti hann aftur broddstafnum og tortryggnisglampa brá fyrir í augum hans, en ég bætti við fljótmæltur:
 - Ég er ekki lengur aumingi.
 Þá var einsog hann áttaði sig. Hann lagði frá sér vopnið og leyfði mér að standa upp. Ég burstaði af mér, rétti honum svo höndina. Hann rétti sína fram á móti og var orðinn nógu rólegur til að vera farinn að söngla eitthvað með sjálfum sér; ekki heyrði ég hvaða söngur það var. Svo benti hann mér að fylgja sér í hraunið.
 Við komum að hraunhól sem ég mundi eftir að hafa verið að snuðra utan í fyrr um daginn. En þá hafði mér sést yfir hellisskútann. Nú sá ég hvar hlaðið hafði verið fyrir munna; það var mjög hagleg hleðsla sem náði alveg til lofts nema allra austast þarsem var inngangur í hellinn og hrosshúð breidd yfir; á hrosshúðina hafði útilegumaðurinn fest lyng og grámosa.
 Halla skaut þá höfðinu út um hellisopið; dökkleit í andliti, einsog sagði í lýsingunni, og með óvanalega framstæðan munnsvip, neðrivörin var þykk og niðurhangandi, en hvorki verkaði konan tiltakanlega svipill né ógeðsleg, einsog sama lýsing vildi meina; að minnsta kosti ekki svona í fljótu bragði. . .

(s. 134-135)