Næðingur

Útgefandi: 
Staður: 
Keflavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Næðingi:

 „Það er kominn morgun,“ sagði ég til að minna hana á að koma sér út. Þá kyssti hún mig og sagði að það gerði ekkert til, sér lægi ekkert á. Ég sagðist þurfa að keyra frænda minn út á flugvöll. Hann kæmi hvað úr hverju.
 „Má ég ekki fá að fljóta með?“ spurði hún og velti sér makindalega á hina hliðina.
 „Nei,“ svaraði ég, „alls ekki.“
 „Gætirðu hringt á bíl fyrir mig?“ spurði hún fullkomlega róleg.
 Ég fór fram á gang þar sem María stóð í rósótta morgunsloppnum og ég spurði hana hvort ég mætti hringja hjá henni.
 „Já þú mátt hringja í þetta skipti og komdu þessari dræsu út.“ hvæsti hún. „Ég kæri mig ekki um að reka neinn hórukassa. Þú skalt ekki venja þig á að koma með skækjur hingað inn.“ María var öll á iði og kiprurnar í munnvikunum voru magnaðari en nokkru sinni fyrr. „Ég er ekki að lána þetta sem einhverja hóruholu. Þú býður ekki hverjum sem er í mín hús góði.“ Ég baðst afsökunar en hún sagði að það þýddi lítið að haga sér eins og svín, koma svo bara og biðjast afsökunar.
 Ég fór upp, fann svarta gamla símann og hringdi. Lyktin í íbúðinni jók ískyggilega á ógleðina, kaldu sviti spratt fram á enninu og það lá við að ég kastaði upp á kommóðuna. Þegar ég kom til baka stóð Berglind niðurlút í ganginum. María var með hendi á lofti og las yfir henni siðferði aldamótakynslóðarinnar þar til Berglind hljóp á dyr.
 „Þessar stelpur í dag taka inn reiðpillur og leggjast á bakið fyrir hvern sem er,“ fussaði María og hvarf út ganginn. Þar sem hún gekk upp stigann runnu upp úr henni soraleg blótsyrði.

(s. 79-81)