Myrkraverk í miðbænum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Myrkraverkum í miðbænum:

 Ég var búin að ljúka mér af. Ég lagði handleggina fram á borðið og huldi andlitið með lófunum. Höfuðið á mér var að springa og mér fannst herbergið snúast fyrir augunum á mér.
 - Sara?
 Ég leit upp. Þetta var Nína. Rödd hennar var hás og andlitið blóðlaust.
 - Já?
 - Hvernig þykist þú vita þetta allt?
 Ég gat ekki svarað. Elísa tók af mér ómakið.
 - Ég verð að bæta því við að Sara er eins og við öll vitum dálítið sérstök. Dálítið mikið sérstök.
 Elísa tók annan bunka af blöðum uppúr töskunni sinni.
 - Þegar Sara kom til mín í gærkvöldi hélt ég að ég sæi draug. Hún var klædd duggarafötum af sjómanninum sem bjargaði henni, úfin og illa til reika, en hún var ekki á því að gefast upp. Við löguðum á henni útlitið, fórum síðan og fengum að hitta Katrínu þó áliðið væri. Eftir það fórum við í íbúðina til Söru og þar sýndi hún mér fulla skúffu af ljóðum sem hún hefur skrifað undanfarna daga. Sara er nefnilega gædd þeim undarlega hæfileika að skrifa ósjálfrátt ljóð sem fjalla um atburði og annað sem kemur fram síðar. Ég kann enga skýringu á þessu fyrirbæri og hef aldrei vitað um neitt svona áður, en svona er þetta. Við settumst niður, röðuðum ljóðunum í rétta tímaröð og lásum þau vandlega yfir. Og það merkilega gerðist. Málið lá ljóst fyrir og brotin runnu saman í eina heild.
 Enginn sagði neitt. Nína hélt um höfuð sér og stundi lágt. Anna grét hljóðlega við hlið mér. Mamma stóð upp.
 - Ef ykkur er sama ætla ég að fara heim með dætur mínar.
 Elísa stóð upp.
 - Auðvitað, við sjáum um afganginn. Ég var óskaplega fegin að þessu var lokið en það var erfitt að standa upp. Mamma og Perla urðu að hálfbera mig á milli sín út í bílinn.
 Davíð kom hlaupandi.
 - Sara, Sara, ég verð að tala við þig. Þú mátt ekki fara svona.
 Mamma sneri sér við.
 - Láttu ekki svona ungi maður. Sérðu ekki að dóttir mín er fárveik? Hún er búin að fá nóg og ég krefst þess að hún sé látin í friði.

(s. 158-159)