Myrknætti

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011
Flokkur: 

Um myrknætti:

Illa útleikið lík finnst á afskekktum stað í Skagafirði. Ari Þór Arason, lögreglumaður á Siglufirði, glímir við rannsókn morðmálsins ásamt því að reyna að koma reiðu á eigið líf. Reykvísk sjónvarosfréttakona sýnir málinu mikinn áhuga og heldur norður í leit að upplýsingum um morðið og hinn myrta. Á sama tíma biður ung nepölsk kona dauða síns, lokið inni í myrkri á óþekktum stað á Íslandi. Saman fléttast þessir þræðir í spennuþrungna frásögn þar sem ekkert er sem sýnist.

Úr Myrknætti:

Fréttir um líkfundinn höfðu spurst út með aðstoð vefmiðlanna sem voru fljótir að komast á sporið. Ekki hafði þó enn komið fram að fórnarlambið hefði átt lögheimili á Siglufirði. Þar gekk lífið sinn vanagang.

Þetta yrði bjartur dagur, veðurguðirnir höfðu ekki tekið þann pól í hæðina að draga fram drungaleg ský þótt einn íbúi bæjarins hefði hlotið hrottalegan dauðdaga.

Ari hafði mælt sér mót við Hákon Halldórsson, verkstjóra í Héðinsfjarðargöngunum, á kaffi húsi við smábátahöfnina. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Ari hafði aflað sér frá Tómasi, sem var óþrjótandi uppspretta fróðleiks um bæjarbúa, var Hákon frægastur fyrir að hafa verið aðalsöngvari hljómsveitarinnar Síldarpiltarnir. Þeir piltar áttu þó blómaskeið sitt eftir að síldin var að mestu farin, en höfðu verið nokkuð vinsælir, spiluðu á böllum víða um land og sendu frá sér þrjár plötur. Hákon var nú kominn yfir fimmtugt, hafði víst aldrei vaxið upp úr hlutverki poppstjörnunnar og ók um – þegar vel viðraði – á gömlum rauðum MG-sportbíl, sem Ari hafði raunar tekið eftir á götum bæjarins. Laglegur bíll.

Hákon stóð upp þegar Ari nálgaðist, þéttur á velli með myndarlega vömb, læddur í svartan leðurjakka, ullarpeysu og gallabuxur, tók sumrinu með fyrirvara og lét napran norðanvindinn ekki kvelja sig. Hákon var lágvaxinn með snöggklippt grátt hár og tætingslegt grátt alskegg. Hann heilsaði Ara með handabandi, þéttingsfast, og sagði hressilegum rómi: „Er það ekki presturinn?“

„Nei,“ svaraði Ari og andvarpaði. „Ari Þór heiti ég.“

Hákon settist aftur, sat við borð utandyra með rjúkandi heitan bolla fyrir framan sig, og bauð Ara sæti.

„Jæja, jæja – fyrirgefðu. Hélt þú værir guðfræðingur. Hvað er svo á seyði?“

„Þetta varðar líkfundinn á Reykjaströnd í Skagafirði.“

Hákon lét þetta ekki á sig fá, virtist hrúfur og harðgerður eins og fjöllin sem hann hafði alist upp við. Það þurfti meira en morð til þess að koma honum úr jafnvægi.

„Varstu ekki búinn að frétta af því máli?“ spurði Ari.

„Jú, jú, þetta var nú í fréttunum í morgun. Var þetta ekki morð? Mér skildist það.“ Hákon var enn yfirvegaður. „Var þetta einhver af mínum mönnum?“ spurði hann svo. Nú örlaði aðeins á áhyggjum í röddinni.

„Já,“ svaraði Ari stuttaralega. „Ég vil biðja þig um að hafa þessar upplýsingar eingöngu fyrir þig í bili. Við ætlum ekki að gefa upp nafn hins látna strax.“

Hákon kinkaði kolli, en Ari vissi þó vel að nafnið yrði enga stund að leka til fjölmiðla, hvort sem Hákon yrði þar að verki eða einhver annar.

„Hann hét Elías … Elías Freysson.“

„Elías, nú, jæja.“ Hákon virtist hissa, eða eins hissa og hann leyfði sér að vera. „Ég sem hélt að hann væri svo góður drengur.“

„Góðir drengir eru líka drepnir.“

(44-6)